Marzieh Afkham verður á næstunni fyrsta konan til að gegna embætti sendiherra fyrir Íran frá því fyrir byltinguna árið 1979. Hún verður jafnframt önnur konan í sögu ríkisins til þess að gegna þessu embætti. Greint var frá skipun Afkham í írönskum fjölmiðlum í gær, en ekki hefur verið greint frá því hvar hún verður sendiherra.
Afkham er nú talskona íranska utanríkisráðuneytisins og er fyrsta konan til að gegna því starfi. Hún hefur um þrjátíu ára reynslu af störfum innan utanríkisþjónustuna.
Fyrir íslömsku byltinguna í Íran árið 1979 hafði ein kona gegnt embætti sendiherra, það var Mehrangiz Dolatshahi, sem var sendiherra í Danmörku frá 1976 og þar til byltingin var gerð. Hún var einnig þingmaður og barðist mikið fyrir umbótum í þágu kvenna, meðal annars með fjölskyldulögunum sem gáfu konum rétt á að sækja um skilnað og halda forræði yfir börnum sínum.
Hassan Rouhani forseti landsins sagði í síðustu viku að það væri skylda ríkisstjórnarinnar að skapa konum fleiri tækifæri, en að breytingar á hefðum væru ekki eingöngu í hans höndum.
Mannréttindasamtök hafa fagnað skipun Afkham sem jákvæðu skrefi í jafnréttisbaráttunni í Íran. Þó breyti það ekki því að íranska þingið sé enn að reyna að setja ný lög sem takmarki hlutverk kvenna á opinberum vettvangi. Til að mynda stendur til að breyta fjölskyldulögunum þannig að fólk megi ekki lengur gangast undir ófrjósemisaðgerðir og að aðgangur að getnaðarvörnum verði takmarkaður verulega.
Rouhani þykir hófsamur forseti og hann hefur slakað á ýmsu sem viðkemur kynjamálum. Nýlega var konum gert kleift að sækja íþróttaviðburði, sem var bannað. Þá hefur hann sagst vera mótfallinn aðgreiningu kynjanna í háskólum. Enn er þó engin kona ráðherra. Ein kona hefur gegnt embætti ráðherra, en það var undir forvera Rouhani, Mahmoud Ahmadinejad.