Stofnendur fiskeldisfyrirtækisins Matorku hafa fengið tæplega 90 milljónir króna úr tækniþróunarsjóði Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) frá árinu 2010.
Fyrirtækið, sem hét áður Íslensk matorka ehf., fékk tæplega 27 milljóna króna styrk árið 2011 til þriggja ára vegna verkefnisins „Úr grænum haga í fiskimaga.“ Meðumsækjendur Íslenskrar matorku um styrkinn voru Laxá ehf., Fóðurblandan hf., Matís og Háskóli Íslands. Markmið verkefnisins, samkvæmt vefsíðu Rannís, var að lækka fóðurkostnað í fiskeldi og þróa ný íslensk hráefni í fóður sem eru ódýr, umhverfisvæn og sjálfbær.
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, verkfræðingur, sem átti upphaflega þriðjungshlut í Íslenskri matorku við stofnun félagsins í gegnum félagið Svinna-verkfræði ehf., var fyrst titluð sem verkefnisstjóri yfir verkefninu, en Stefanía Katrín Karlsdóttir tók síðar við verkstjórninni af Ragnheiði. Stefanía, sem er matvælafræðingur og viðskiptafræðingur og fyrrverandi bæjarstjóri í Árborg, er sömuleiðis einn stofnanda Íslenskrar matorku og átti þriðjungshlut í félaginu við stofnun í gegnum félagið Nova Investment, sem hún á ásamt eiginmanni sínum Eiríki Svavarssyni hæstaréttarlögmanni.
Milljónirnar streymdu inn
Stefanía var einnig í forsvari fyrir verkefni sem hlaut 23,5 milljóna króna styrk úr tækniþróunarsjóði Rannís árið 2010. Verkefnið laut að því að byggja upp nýja útflutningsgrein, framleiðslu á hvítum matfiski í hlývatnseldi. Þar að auki fékk Stefanía 12,5 milljóna króna styrk úr tækniþróunarsjóði Rannsóknarmiðstöðvar Íslands í fyrra, en meðumsækjendur hennar að styrknum voru Íslensk matorka og Matís. Markmið verkefnisins var að hefja þörungaræktun í frárennsli frá fiskeldi.
Þá hefur áðurnefnd Ragnheiður Inga, einn af stofnendum Íslenskrar matorku, tvívegis hlotið veglega styrki úr tækniþróunarsjóði Rannís. Árið 2013 fékk hún 14 milljóna króna styrk til tveggja ára frá Rannís vegna landeldis á Evrópuhumri, og í fyrra fékk hún 12,5 milljóna styrk úr tækniþróunarsjóðnum til verkefnis sem þróar hagkvæma framleiðslu á fiski og grænmeti, með því að nota jarðhita og ferskt hreint vatn. Meðumsækjendur að síðastnefnda verkefninu voru Bioforsk, Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands.
Nú á að einbeita sér að bleikjueldi
Eins og áður segir á Ragnheiður félagið Svinna-verkfræði ehf. sem aftur á tæplega tólf prósenta hlut í einkahlutafélaginu Rannsóknir og þróun, sem áður hét Matorka. Matorka Holdings, svissneskt móðurfélag Matorku ehf., á ríflega 88 prósenta hlut í Rannsóknum og þróun á móti Svinnu-verkfræði ehf.
Áðurnefnt félag Stefaníu K. Karlsdóttur og Eiríks Svavarssonar, Nova Investment, á 15 prósenta hlut í Matorku Holdings. Þá á félagið Landás tæplega 15 prósenta hlut í móðurfélagi Matorku ehf., en það félag er í eigu Sjafnar Sigurgísladóttur, fyrrverandi forstjóra Matís, og var þriðja félagið sem kom að stofnun Íslenskrar matorku árið 2010.
Tækniþróunarsjóður Rannsóknarmiðstöðvar Íslands hefur þannig frá árinu 2010 ýmist styrkt stofnendur Matorku eða félagið sjálft í samvinnu við aðra, um tæplega 90 milljónir króna vegna ýmissa verkefna. Eins og kunnugt er gerði félagið umdeildan fjárfestingasamning við ríkið á dögunum vegna fyrirhugaðs bleikjueldis á Reykjanesi. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins um málið gætu ívilnanir fjárfestingasamningsins numið hátt í 60 prósentum af heildarfjárfestingu Matorku vegna verkefnisins.