Staða fyrstu fasteignakaupenda hefur batnað og eru þeir nú orðnir 20 prósent kaupenda á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við 13,6 prósent meðaltal frá árinu 2008. Meðalaldur fyrstu kaupenda hefur þó hækkað og er í dag 29 ár, sem er svipaður meðalaldur fyrstu kaupenda í Bretlandi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem Reykjavík Economics hefur unnið fyrir Íslandsbanka, en helstu niðurstöður hennar verða kynntar á opnum fundi í útibúi bankans á Granda í dag.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þinglýstum kaupsamningum fjölgaði um tæplega 12 prósent á síðasta ári frá árinu á undan, en samtals voru þeir 8.314 á síðasta ári. Þá nam heildarvelta á íbúðamarkaðinum 257 milljörðum króna sem er rúmlega 16 prósent hækkun að nafnvirði en árið á undan. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,8 prósent á síðasta ári, verð á eignum í fjölbýli hækkaði um níu prósent og eignir í sérbýli hækkuðu um 7,7 prósent.
Takmörkuð bólumyndun
Á undanförnum árum hefur ekki verið byggt nægilega mikið af nýjum íbúðum til að mætta náttúrulegri íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í skýrslu Reykjavík Economics. Þar segir að samtals 954 íbúðir hafi verið fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári, sem er 203 fleiri íbúðir en árið á undan. Að jafnaði hafa tæplega 1.200 íbúðir verið fullgerðar árlega á tímabilinu 1983 til 2014. Alls voru 1813 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu sem eru 364 færri íbúðir en um áramótin 2013. Þá var byrjað á 570 íbúðum á síðasta ári, sem er vel undir langtíma meðaltalinu.
Þá segir í skýrslunni að skuldastaða heimila hafi batnað nokkuð með minnkandi atvinnuleysi og auknum kaupmætti. Bólumyndun á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu sé takmörkuð en íbúðarhúsnæði sé engu að síður orðið dýrt miðsvæðis í Reykjavík.