Samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands á reglulegum launum, fékk hver starfsmaður Seðlabanka Íslands að meðaltali 692.143 krónur í laun á mánuði árið 2013. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.
Regluleg laun, samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands, eru greidd laun fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur, svo sem föst yfirvinna og uppmælingar sem gerðar eru á hverju útborgunartímabili. Við útreikninga er ekki tekið tillit ákvæðisgreiðslna, hlunninda, akstursgreiðslna né annarra óreglulegra greiðslna.
Laun í Seðlabankanum hafa hækkað í takt við launaþróun
Auk þess að vilja vita meðalheildarlaun starfsmanna Seðlabanka Íslands á árinu 2013, vildi Þorsteinn fá að vita hvernig laun í Seðlabankanum hafa þróast frá árinu 2008 samanborið við laun félaga í ASÍ, BSRB og BHM á sama tímabili. Samkvæmt svari ráðherra hafa laun í Seðlabankanum hækkað um 23,3 prósent á tímabilinu, á meðan laun hjá ASÍ hækkuðu um 27,3 prósent, innan vébanda BSRB um 23,6 prósent og hjá BHM um 21,7 prósent á sama tíma. Seðlabankinn gerði reyndar fjölmarga fyrirvara við samanburðinn.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra kemur jafnframt fram að meðallaun aðstoðarseðlabankastjóra og framkvæmdastjóra sviða innan Seðlabankans hafi numið 1.433.220 krónum á mánuði árið 2013.
Sérstakar álagsgreiðslur óbreyttar síðan árið 2008
Laun aðstoðarseðlabankastjóra eru ákvörðuð af bankaráði Seðlabankans, í því efni hefur bankaráð tekið mið af úrskurðum kjararáðs um launakjör seðlabankastjóra. Laun framkvæmdastjóra sviða eru ákvörðuð af seðlabankastjóra, en hann hefur ekki tekið neina sérstaka ákvörðun varðandi þau laun síðan um mitt ár 2007 að öðru leyti en varðar álag. Breytingar á þessum launum hafa því ákvarðast af grunnlaunahækkunum í kjarasamningum Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja, að því er fram kemur í svari fjármála- og efnahagsráðherra.
Þá kemur jafnframt fram í svari ráðherra að sumir framkvæmdastjórar innan Seðlabankans fái greitt álag sem er jafnhátt þóknun bankaráðs. Álagið hafi verið lækkað samhliða því þegar forsætisráðherra tók ákvörðun um lækkun þóknunar bankaráðs þann 29. desember árið 2008 og hafi verið óbreytt í krónutölu síðan. Að öðru leyti hafi einu breytingarnar á kjörum framkvæmdastjóra verið þær að endurskoðað hefur verið hvaða framkvæmdastjórar njóta álagsins í samræmis varðandi stærð sviða, ábyrgð þvert á bankann og kynjajafnréttis.