Meðallengd refsinga þeirra fanga sem afplána nú fyrir stórfellt fíkniefnabrot í íslenskum fangelsum, eða öðrum úrræðum utan þeirra, er 68 mánuðir. Það þýðir að meðallengd dóms hvers og eins þeirra er fimm ár og átta mánuðir. Þetta kemur fram í tölum sem Fangelsismálastofnun tók saman fyrir Kjarnann.
Flestir þeirra 139 fanga sem afplána í íslenskum fangelsum í dag sitja inni fyrir fíkniefnabrot, eða 42 talsins.
Flestir þeirra 139 fanga sem afplána í íslenskum fangelsum í dag sitja inni fyrir fíkniefnabrot, eða 42 talsins. Næst flestir sitja inni fyrir kynferðisbrot, eða 25 talsins, og 22 fangar sitja inni fyrir ofbeldisbrot. Jafnmargir fangar sitja inni fyrir manndráp og þjófnað/skjalafals/fjársvik, eða 17 talsins.
Þegar horft er á alla fanga í afplánun, líka þá sem afplána utan fangelsa, eru 55 að afplána vegna fíkniefnabrota.
Afbrotum fækkar á Íslandi
Afbrotum hefur fækkað jafnt og þétt á Íslandi undanfarin ár. Samkvæmt tölfræði sem embætti ríkislögreglustjóra birti í apríl síðastliðnum hefur afbrotum í heild fækkað úr 73.039 árið 2008 í 51.282 í fyrra. Afbrot voru því um 42 prósent árið 2008 en þau voru í fyrra. Ofbeldisbrotum fækkaði til að mynda um ellefu prósent á því tímabili, brotum gegn valdstjórninni fækkaði um 34 prósent og auðgunarbrot (rán, þjófnaðir og gripdeildir) voru 60 prósent færri árið 2013 en fimm árum áður.
Vert er að taka fram að fækkunin er að langmestu leyti tilkomin vegna þess að bókfærð umferðarlagabrot voru 19 þúsund færri í fyrra en árið 2008,en slík brot eru rúmlega 70 prósent allra bókfærðra afbrota í tölfræði ríkislögreglustjóra.
Fíkniefnabrotum fjölgar
Á meðan að brotum í flestum flokkum hefur fækkað hefur fíkniefnabrotum fjölgað umtalsvert. Alls voru framin 2.183 slík brot í fyrra samkvæmt tölfræði ríkislögreglustjóra. Um 70 prósent fíkniefnabrota er vegna vörslu og meðferðar á fíkniefnum og er aukning skráðra brota langmest í þeim brotaflokki. Sala, dreifing og innfluttningur á fíkniefnum hefur einnig aukist mikið.
Dómar í fíkiniefnamálum þyngdust mjög í kringum síðustu aldarmót. Þar vógu mest nokkrir mjög þungir dómar vegna innflutnings á e-töflum. Mikill samfélagslegur þrýstingur var á þeim tíma um að refsingar yrðu hertar í málunum. Þessi þrýstingur skilaði því að um aldarmótin síðustu var refsiramminn í fíkniefnamálum hækkaður úr tíu árum í tólf árið 2001. Á þeim tíma féll dómur vegna mesta magns e-taflna sem fluttar höfðu verið inn, 14.292 töflur, sem fundust á manni sem millilenti hérlendis á leið sinni til Bandaríkjana. Hann var dæmdur í níu ára fangelsi.
Þróun meðallengdar dóma fyrir stórfelld fíkniefnabrot frá árinu 1996 til 4. nóvember 2014.
Árið eftir að hinn víðari refsirammi tók gildi var Austurríkismaður gripinn með hátt í 70.000 e-töflur auk fjölda annarra fíkniefna. Hann var dæmdur í tólf ára fangelsi, eða hámarksrefsingu, í héraði en sá dómur var styttur í níu ár í Hæstarétti.
Árið 2001 var meðallengd þeirra sem sitja í fangelsum fyrir stórfelld fíkniefnabrot sú lengsta sem hún hefur nokkru sinni verið í sögu landsins, 53,33 mánuðir.
Hver fangi kostar 7,3 milljónir
Dómar milduðust um tíma eftir aldarmót. Á tímabilinu 2003 til 2013 var meðallengd þeirra 33,7 mánuðir. Árið 2012 var meðallengdin 27,18 mánuðir. Í ár hefur meðallengdin hins vegar hækkað skarpt og er nú 52,20 mánuðir. Þegar þeir sem afplána utan fangelsa eru teknir inn í dæmið er útkoman sú að meðallengd refsinga þeirra er 68 mánuðir, eða fimm ár og átta mánuðir. Langflestir sem dæmdir eru fyrir stórfelld fíkniefnabrot sitja að minnsta kosti af sér tvo þriðju hluta refsingar.
Hver fangi í íslenska fangelsiskerfinu kostar íslenska ríkið um 7,3 milljónir króna á ári.