Meðalsölutími íbúða í mars var 35,8 dagar á höfuðborgarsvæðinu og hefur aldrei verið styttri. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var einnig um met að ræða þar sem meðalsölutíminn var 44,1 dagur. Annars staðar á landsbyggðinni hefur meðalsölutíminn lengst nokkuð undanfarna tvo mánuði og er nú 71,4 dagar en sveiflur þar eru miklar og því of snemmt að segja til um hvort um viðsnúning sé að ræða.
Þetta kemur fram nýjustu mánaðarskýrslu HMS.
Þar segir ennfremur að meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 71,4 milljónir króna í mars samanborið við 57,9 milljónir króna í mars 2021. Þar af seldust íbúðir í fjölbýli að jafnaði á 66 milljónir króna en sérbýlin á 109,6 milljónir króna. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var meðalkaupverðið 48,3 milljónir og annars staðar á landinu var það 42,6 milljónir króna.
Yfir 60 prósent íbúða seldust yfir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt HMS seldist í mars í fyrsta sinn yfir helmingur íbúða yfir ásettu verði, eða 51,2 prósent, en í febrúar hafði hlutfallið í fyrsta sinn farið yfir 40 prósent. Yfirleitt hafi þetta hlutfall verið á bilinu 7 til 15 prósent.
Fram kemur í skýrslunni að sérstaklega virðist vera mikil ásókn í íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu en í mars seldust 61,2 prósent íbúða yfir ásettu verði miðað við þriggja mánaða meðaltal en aðeins 24 prósent undir ásettu verði. Ef aðeins er horft til marsmánaðar en ekki á þriggja mánaða meðaltal er hlutfallið nokkuð hærra en hins vegar er um bráðabyrgðatölur að ræða. Aukinheldur seldist meira fjórðungur 1 til 2 herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu á meira en 5 prósent yfir ásettu verði. Í október á síðasta ári fór þetta sama hlutfall í fyrsta sinn yfir 10 prósent.
Um 52 prósent sérbýla á höfuðborgarsvæðinu seldust yfir ásettu verði sem er líka met og á landsbyggðinni seldust um 45 prósent íbúða í fjölbýli og 26 prósent sérbýla yfir ásettu verði.
Svipað ástand virðist ríkja á Norðvesturlandi, samkvæmt skýrsluhöfundum, en þar seldust 49 prósent allra íbúða yfir ásettu verði og í póstnúmeri 600 Akureyri seldust 56 prósent íbúða yfir ásettu verði sem er sama hlutfall og á höfuðborgarsvæðinu. Mest virðist hafa verið bitist um íbúðir í úthverfum Reykjavíkur en yfir 70 prósent íbúða í póstnúmeri 111 í Breiðholti seldust yfir ásettu verði og 108 og 109 fylgja þar fast á eftir.