Dimítrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, mun sjálfur stýra rannsókn á því hvort Rússland eigi að grípa til banns á innflutningi frá sjö löndum sem stutt hafa áframhaldandi viðskiptaþvinganir Evrópusambandandsins, Bandaríkjanna og Kanada á Rússland. Ísland er á meðal þeirra landa. Medvedev skipaði fyrir um það í gær að rannsóknin ætti að hafa fram. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að þetta valdi auðvitað áhyggjum og að verið sé að reyna að afla frekari upplýsinga um hversu mikil alvara sé í málinu hjá Rússum. "Við höfum haft áhyggjur af því allan tímann að lenda á viðskiptabannlista hjá Rússum. Þessar fréttir eru ekki til þess fallnar að draga úr áhyggjum okkar."
Jón Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir við Morgunblaðið að viðskiptabannið hafi sett mikla hagsmuni Íslands í uppnám. Alls nemur útflutningur sjávarfangs til Rússlands frá Íslandi á bilinu 21 til 25 milljörðum króna á ári. Þar munar mest um frosnar loðnuafurðir, makríl og síld.
"Við höfum haft áhyggjur af því allan tímann að lenda á viðskiptabannlista hjá Rússum. Þessar fréttir eru ekki til þess fallnar að draga úr áhyggjum okkar," segir Gunnar Bragi Sveinsson.
Hefur staðið tæpt áður
Þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum mánuðum sem Íslendingar óttast að Rússar loki fyrir innflutning héðan vegna stuðnings Íslands við viðskiptaþvinganir gegn landinu vegna aðgerða þess í Úkraínu. 23. október 2014 greindi Kjarninn frá því að fundað hefði verið með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi í utanríkisráðuneytinu vegna stöðunnar sem komin er upp milli Íslands og Rússlands. Rússar höfðu þá hug á að loka á viðskipti við Ísland, og útvíkka þannig innflutningsbann á matvælum til Rússlands frá Vesturlöndum,.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, en heildarutanríkisviðskipti við Rússland árinu 2013 námu ríflega 20 milljörðum króna. Þar af voru um 18 milljarðar vegna viðskipta með makríl, en um 47 prósent af öllum makríl sem veiddur var við Ísland árið 2013 fór inn á Rússlandsmarkað.
Á þessum tíma höfðu sjávarútvegsfyrirtæki fengið upplýsingar um að lokað yrði á viðskipi við Ísland, ekki síst vegna stuðnings Íslands við hertar pólitískar og efnahagslegar aðgerðir gegn Rússlandi, sem rekja má rekja til pólitískrar spennu og aðgerða Rússa í Úkraínu. Af þessu varð þó ekki.
Ástæðan fyrir þessari stöðu er sú að hinn 15. október 2014 birti Evrópuráðið tilkynningu, um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu, stilltu sér upp með Evrópusambandsríkjum, með ákvörðun frá 23. júní, um hertar viðskiptaþvingangir gegn Rússum. Nýverið birti Evrópusambandið síðan fréttatilkynningu um áframhaldandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu. Ísland styður áfram þær aðgerðir líkt og það hefur gert frá byrjun.