Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hefur krafist þess að meiðyrðamál Guðmundar Týs Þórarinssonar gegn sér, verði endurupptekið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Bragi sem ekki tók til varna við dómsmeðferð málsins, vill nú hreinsa nafn sitt og taka til varna í málinu. Aðalmeðferð í því fer fram í sumar.
Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, höfðaði meiðyrðamál á hendur Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, í kjölfar þess að meðferðarheimilinu var lokað árið 2010.
Málið má rekja til atviks hjá Götusmiðjunni í lok júní árið 2010, þegar börn á meðferðarheimilinu voru fjarlægð þaðan að beiðni Barnaverndarstöðu eftir meintar hótanir Mumma um líkamsmeiðingar í garð barnanna sem þar dvöldu.
Stefndi forstjóra Barnaverndarstofu
Mummi stefndi síðar forstjóra Barnaverndarstofu fyrir meiðyrði vegna átta ummæla sem höfð voru eftir honum á Vísi og vefsíðu RÚV í kjölfar lokunar Götusmiðjunnar. Þar sagði Bragi meðal annars að undirrót vanda Götusmiðjunnar væri stjórnunarvandi forsöðumannsins sem væri farinn að bitna á meðferðinni og skaða börnin sem væru í meðferð. Þá hafi samskipti Mumma við börnin farið yfir velsæmismörk og framganga hans valdið vanlíðan og óöryggi, auk þess hafi hann atað starfsmann óhróðri og ekki síst hótað ungmennum líkamsmeiðingum.
Dómur gekk í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. október síðastliðinn. Um svokallaðan útivistardóm var að ræða þar sem Bragi tók ekki til varna í málinu, þar sem ummæli forstjóra Barnaverndarstofu voru dæmd dauð og ómerk og honum gert að greiða Guðmundi Tý 400.000 krónur í miskabætur og allan málskostað, 250 þúsund krónur.
Vill núna taka til varna og krefst endurupptöku
Bragi hefur nú krafist endurupptöku á málinu þar sem hann hyggst taka til varna. Málið var endurupptekið í febrúar með fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í gær fór fram svokölluð efnisfyrirtaka í málinu þar sem ákveðið var að aðalmeðferð fari fram í því 3. júní næstkomandi. Í greinargerð sem verjandi Braga, Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, hefur lagt fram fyrir dómi er ásökunum Mumma vísað á bug, í átján liðum.