Dómstóll ÍSÍ mun í næstu viku kveða upp dóm sinn varðandi meint svindl Arnars Péturssonar í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta staðfestir Gunnar Guðmundsson formaður dómstólsins í samtali við Kjarnann. Arnar kom fyrstur Íslendinga í mark í hlaupinu, og var krýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni.
Hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason, sem kom annar í endamark Reykjavíkurmaraþonsins rúmum níu mínútum á eftir Arnari, kærði úrslit hlaupsins til yfirdómnefndar maraþonsins. Í kæru málsins er Arnar sakaður um svindl með því að njóta liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu, sem hafi verið brot á reglum maraþonsins. Kjarninn greindi fyrst frá málinu.
Í reglum Reykjavíkurmaraþonsins, segir í 10. grein: "Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja."
Verður Íslandsmeistari karla í maraþoni sviptur titlinum?
Yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins tók kæruna til efnislegrar meðferðar á fundi þann 28. ágúst síðastliðinn. Í úrskurði dómnefndarinnar er viðurkennt að reglur maraþonsins hafi verið brotnar, en hin birtu úrslit hlaupsins skuli engu að síður standa óhögguð. Ekki þótti sannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna, og í ljósi yfirburða Arnars í hlaupinu taldi dómnefndin að fylgd umræddra hjólreiðamanna hafi ekki haft áhrif á úrslit maraþonsins.
Á meðal gagna málsins, sem lágu til grundvallar úrskurði dómnefndarinnar, voru andmæli og greinargerð frá Arnari Péturssyni og föður hans, Pétri Hrafni Sigurðssyni sem var annar hjólreiðamannanna sem hjólaði með Arnari í hlaupinu. Kærandi málsins var mjög ósáttur við að yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins, hefði ekki sömuleiðis leitað eftir greinargerð frá honum í málinu, og sendi athugasemd þess efnis til dómstóls ÍSÍ.
Pétur Sturla, sem sigraði í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra, kærði jafnframt úrskurð yfirdómnefndar maraþonsins til dómstólsins og krefst þess að þátttaka Arnars Péturssonar í hlaupinu verði dæmd ógild. Dómstóll ÍSÍ veitti þá yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins frest til að bregðast við kærunni í formi greinargerðar. Íþróttabandalag Reykjavíkur, sem hefur umsjón með framkvæmd Reykjavíkurmaraþonsins, hefur skilað inn umbeðinni greinargerð fyrir hönd yfirdómnefndar maraþonsins. Beiðni Kjarnans um að fá umrædda greinargerð afhenda var hafnað.
Eins og fyrr segir mun niðurstaða dómstóls ÍSÍ liggja fyrir í næstu viku, og þá mun koma í ljós hvort krafa um að Arnar Pétursson verði sviptur titilinum nái fram að ganga.