Meira en 150 starfsmenn á Landspítalanum hafa sagt upp störfum eftir að stjórnvöld settu lög á verkfallsaðgerðir. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Á meðal þeirra 150 starfamanna sem hafa sagt upp eru 125 hjúkrunarfræðingar, en á krabbameinsdeild er ástandið sérstaklega erfitt en þriðjungur starfsmanna þar hefur sagt upp störfum.
Mál BHM gegn íslenska ríkinu verður flutt þann 3. júlí næstkomandi. Það var þingfest í vikunni fyrir héraðsdómi Reykjavíkur en málið fær flýtimeðferð fyrir dómstólum. BHM telur að þau lög sem stjórnvöld settu á verkfallsaðgerðir stéttarfélaga BHM hafi verið ólögmæt. Í stefnu BHM gegn íslenska ríkinu segir að engin rök hafi verið færð fram sem sýni fram á neyðarstöðu vegna verkfallsaðgerða og að svo virðist sem geðþóttaákvörðun hafi ráðið því að lög hafi verið sett sem banna verkföll stéttarfélaga BHM.
Kjaradeilu aðildarfélaga BHM var vísað til ríkissáttasemjara í lok mars síðastliðnum. Haldnir voru 24 fundir sem báru ekki árangur. Þann 13. júní síðastliðinn voru samþykkt lög á Alþingi sem bönnuðu verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélagss Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringasviði, Dýralækningafélags Íslands hjá Matvælastofnun og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Þegar lög voru sett höfðu verkfallsaðgerðir staðið yfir í á þriðja mánuð. „Að mati stefnanda felur setning laga 31/2015 í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagssamtaka og leitar því fulltingis dómstóla til að fá hlut félaga sinn réttan,“ segir í stefnu BHM.