Byggð á höfuðborgarsvæðinu hefur þynnst verulega á undanförnum áratugum og nú fer meira landrými undir hvern íbúa en nokkru sinni fyrr. Aðeins 35 íbúar bjuggu á hverjum hektara lands árið 2012, sem er mjög dreifð byggð fyrir borgarsvæði, en árið 1985 voru 54 íbúar á hverjum hektara.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu og sameiginlegri stefnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Höfuðborgarsvæðið 2040, sem kom út í vikunni.
Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 70 þúsund frá árinu 1985 til ársins 2012 og gert er ráð fyrir því að á næstu 25 árum verði fjölgunin 70 þúsund manns til viðbótar. Auk fólksfjölgunar sem spáð er á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir að Suðvesturhornið haldi áfram að vaxa, en þar hefur einnig verið fjölgun undanfarin ár á meðan íbúafjöldi annarra landshluta hefur ýmist staðið í stað eða minnkað, að því er fram kemur í skýrslunni. Síðustu 25 ár hefur fjölgun fólks á höfuðborgarsvæðinu numið tæplega 90 prósentum af allri fólksfjölgun. Gangi þessar spár eftir verða íbúar höfuðborgarsvæðisins farnir að nálgast 300 þúsund árið 2040.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að þessari fjölgun fólks verður að mæta án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og án þess að óbyggt land verði brotið í sama mæli og gert hefur verið undanfarna áratugi.
Frá árinu 1985 hafa 37,5 ferkílómetrar verið teknir undir íbúðabyggð, sem er álíka stórt landsvæði og Reykjavík vestan Suðurlandsvegar ásamt Seltjarnarnesi.
Samanburður milli áranna 1985 og 2012, skýringarmynd úr stefnu sveitarfélaganna.
Þá kemur fram í skýrslunni að bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið hlutfallslega meira en íbúafjöldi síðustu áratuga. Fjöldi bíla var 67.500 árið 1985 en árið 2012 voru bílarnir orðnir 125.500 talsins. Það þýðir yfir 1,5 bíll á hverju heimili. Ef bílum fjölgar í sama hlutfalli og fólki munu 40 þúsund bílar bætast við bílaflotann til ársins 2040.
Lengd ferða hefur líka aukist eftir því sem mörk byggðarinnar hafa þanist út og hlutfall ferða sem eru farnar með bíl eru með því hæsta sem finnst í borgum af sambærilegri stærð á norðlægum slóðum, eða um 75 prósent. Að sama skapi er hlutur almenningssamgangna lítill í alþjóðlegum samanburði, aðeins fjögur prósent.