Áætlað er að stórir opinberir aðilar fjárfesti fyrir allt að 125 milljarða króna í ár, sem væri 20 milljarða króna aukning frá því í fyrra. Aftur á móti er búist við því að heildarupphæð í útboðum þeirra á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) verði um 15 milljörðum krónum minna en í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtri greiningu frá SI.
Misræmi þar sem útboð frestast
Á Útboðsþingi samtakanna, sem hægt er að fylgjast með hér, eru byggingarverkefni stærstu opinberu stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga boðin út. Því gefur þingið ágæta mynd af áætluðum fjárfestingum hins opinbera.
SI hefur gefið út greiningu þar sem heildarupphæð í útboðum þeirra sem koma fram á þinginu er áætluð, en samkvæmt henni mun upphæðin dragast saman um 15 milljarða króna á milli ára og nema 109 milljörðum króna í ár. Samtökin segja þennan samdrátt vera áhyggjuefni, þar sem mikilvægt sé að fjárfesting í innviðauppbyggingu sé næg og viðhaldi innviða sinnt og sé því ástæða til að auka útboð í þess háttar fjárfestingum.
Aftur á móti búast samtökin við að áætluð fjárfesting verði 20 milljörðum krónum meiri í ár heldur en í fyrra og muni nema 125 milljörðum króna. Samtökin segja að misræmi sé á milli útboða og áætlaðra fjárfestingarverkefna þar sem stundum verði ekki af útboðum eða þau frestast. Því má ætla að aukninguna í fjárfestingu í ár megi skýra með því að töluvert af fyrirhuguðum útboðum í fyrra hafi verið slegið á frest.
Reykjavíkurborg leiðir í fjárfestingum
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) boða umfangsmestu útboðin í ár. Á meðal verkefna sem boðið verður út hjá Vegagerðinni er Sæbraut og Miklabraut í stokk og gatnamót við Bústaðaveg. FSRE býður hins vegar út ýmis verkefni víða um land sem tengjast meðal annars hjúkrunarheimilum og heilsugæslum.
Umfangsmestu framkvæmdirnar hjá hinu opinbera á þessu ári verða hins vegar hjá Reykjavíkurborg. Borgin áætlar að fjárfesta fyrir rúmlega 32 milljarða króna í ár, og verður það umtalsverð aukning frá því í fyrra ef áætlanir ná fram að ganga. Samkvæmt greiningu SI fer stór hluti þessara verkefna í uppbyggingu grænna íbúðahverfa og athafnasvæða víða um borgina.