Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, breytti í lok júlí síðastliðnum reglugerð um stjórn makrílveiða þannig að hærra hlutfall makrílaflans má vinna í fiskimjöl en áður. Fyrir breytinguna var útgerðum skylt að ráðstafa mánaðarlega að minnsta kosti 70 prósent af makrílafla einstakra skipa í vinnslu til manneldis. Það hlutfall hefur nú verið lækkað niður í fimmtíu prósent. Breytingarnar á reglugerðinni var útgefin þann 31. júlí síðastliðinn.
Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu tengist ákvörðunin ekki innflutningsbanni Rússlands sem sett var í dag, en fyrstu fréttir af fyrirhugaðri útvíkkun innflutningsbannsins voru sagðar í lok júlí og byrjun ágúst. Ekki er lengur talin þörf á að reglur kveði á um að svo hátt hlutfall fari til manneldis, en á síðustu árum hefur nærri 90 prósent aflans verið unninn til manneldis.
Nokkur umræða skapaðist um mjölbræðslu útgerða á makríl þegar veiðar hófust á fiskitegundinni árið 2007. Sú staðreynd að nær allur aflinn fór í mjöl- og lýsisbræðslu var gagnrýnd. Í kjölfarið voru settar reglur um lágmarksafla sem verður að ráðstafa í vinnslu til manneldis. Þetta hlutfall hefur nú verið lækkað í reglugerðinni, úr 70 prósentum í 50 prósent, og má því meiri makríll en áður fara í mjölbræðslu.
Segja breytinguna afturför
Fjallað er um breytinguna á vef Smábátaeigenda í dag. Þar er hún sögð afturför. „Eftir að hafa tekist á örskömmum tíma að færa okkur úr bræðslunni yfir í að fullvinna makrílinn er hér um afturför að ræða,“ segir í umfjöllun á vef Smábátaeigenda.
Bent er á að hlutfall makríls af Íslandsmiðum til manneldis hafi verið 87 til 90 prósent af heildarafla allt frá árinu 2011. Árið 2010 var hlutfallið 60 prósent (40 próesnt fór þá í fiskimjöl- og lýsisframleiðslu) og árið 2009 var hlutfallið 17 prósent. Árið 2007 fór ekkert af aflanum í vinnslu til manneldis.
Aldrei meira af makríl og markaðir lokast
Hafrannsóknarstofnun tilkynnti á þriðjudaginn síðasta að nýjustu mælingar sýni að aldrei hafi eins mikið af makríl verið á Íslandsmiðum. En í sömu viku og greint er frá þessum tíðindum þá lokast Rússlandsmarkaður, stærsti markaður íslenskra útgerða með uppsjávarfisk og hafa þeir á síðustu árum verið stærsti kaupandi makríls.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi áætla að við eðlilegar aðstæður hefði virði útflutnings á sjávarafurðum til Rússlands numið um 37 milljörðum króna á þessu ári. Mestu munar um útflutning til Rússlands á loðnu og makríl. Áætlað virði útflutnings á þessum tveimur fisktegundum er um 23,3 milljarðar króna árið 2015, miðað við eðlilegar aðstæður.