Talsvert fleiri Bandaríkjamenn segjast þessa dagana vera óánægðir með frammistöðu Joe Biden sem forseta en ánægðir, þegar spurt er um þetta efni í skoðanakönnunum. Samkvæmt vegnu meðaltali kannanna sem sjá má á vef miðilsins FiveThirtyEight segjast nú einungis 42,8 prósent Bandaríkjamanna sátt með frammistöðu Biden, en rúmur helmingur, 51,6 prósent, lýsa sig ósátt.
Í einni nýlegri könnun, sem Suffolk-háskóli framkvæmdi fyrir USA Today dagana 3.-5. nóvember, sögðust einungis 37,8 prósent sátt með frammistöðu forsetans í embætti, nú þegar styttist í að hann hafi gegnt forsetaembættinu í 300 daga.
Bara Trump óvinsælli
Einungis einn forseti hefur mælst óvinsælli en Biden á þessum tímapunkti á forsetaferlinum, samkvæmt yfirliti sem finna má á vef FiveThirtyEight.
Það var Donald Trump, en nær alla fjögurra ára forsetatíð Trump sagðist rösklega helmingur Bandaríkjamanna ósáttur með störf hans.
Afganistan, efnahagurinn, veiran
Ánægja með störf forsetans hefur farið lækkandi frá því í lok júlí og óánægjan vaxið að sama skapi.
Í ágústmánuði, eða um það leyti sem Talíbanar sóttu fram í Afganistan og sölsuðu undir sig stjórn landsins á meðan að bandarískt herlið hraðaði sér á brott í óðagoti frammi fyrir augum heimsins, féll ánægjan með störf forsetans markvert.
Undir lok mánaðarins voru þeir orðnir fleiri sem sögðust ósáttir með störf hans en sáttir, í flestum könnunum.
Síðan þá hefur enn syrt í álinn.
Erfiðlega hefur gengið hjá Biden að koma þeim stefnumálum sem hann setti á oddinn í kosningabaráttu síðasta árs í gegnum þingið og óvissa í efnahagsmálum, verðbólga og áframhaldandi útbreiðsla kórónuveirunnar valda forsetanum vandræðum.
Í fréttaskýringu á vef Vox um versnandi stöðu forsetans er athygli vakin á því að hvað bæði efnahagsmál og veiruna varðar hefur almenningsálitið snúist Biden í óhag svo um munar.
Þar er vísað til könnunar NBC News, en í þeirri sömu könnun voru Bandaríkjamenn einnig spurðir hvort þeir teldu landið vera á réttri eða rangri braut. Fleiri en sjö af hverjum tíu sem svöruðu töldu Bandaríkin á rangri braut, er könnunin var framkvæmd undir lok októbermánaðar.