Bretar sem vilja að Bretland tilheyri áfram Evrópusambandinu (ESB) mælast 19 prósentustigum fleiri en þeir sem vilja ganga úr sambandinu, í nýrri könnun sem gerð var fyrir Daily Mail og fréttastofa Bloomberg greinir frá. Þeir sem eru fylgjandi áframhaldandi aðild voru 55 prósent aðspurðra en 36 prósent söðgðust á móti. Síðast þegar könnunin var gerð, í júní 2015, sögðust 51 prósent vilja vera áfram í sambandinu en 33 sögðust vera á móti. Hlutfall þeirra sem sögðust ekki hafa gert upp hug sinn lækkaði milli kannananna úr 16 prósentum í átta prósent.
Könnunin sem gerð var fyrir Daily Mail sýnir aðrar niðurstöður en könnun YouGov Plc gerði um miðjan síðasta mánuð. Þá mældist stuðningur við útgöngu tveimur prósentustigum meiri en við aðild að ESB.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu árið 2017, í kjölfar enurskoðunar samnings Bretlands við sambandið. Í viðtali við útvarpsstöðina BBC Radio 4 í gær sagði Cameron að góður gangur væri á málum, en hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar hafa gefið mikið upp til þessa um gang viðræðna.