Um 71 prósent aðspurðra sögðust ánægð með áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta í nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Um 22 prósent þátttakenda í könnuninni höfðu kynnt sér áætlunina vel, 30 prósent töldu sig hvorki hafa kynnt sér hana vel né illa en 44 prósent sögðust lítið eða ekkert hafa kynnt sér hana. Greint var frá niðurstöðum þjóðarpúlsins í hádegisfréttum RÚV.
Áætlunin um losun fjármagnshafta var kynnt á blaðamannafundi í Hörpu þann 8. júní síðastliðinn.
Fram kom í frétt RÚV að karlar höfðu frekar kynnt sér áætlunina heldur en konur, fólk yfir sextugt var líklegra til þess að hafa kynnt sér áætlunina heldur en yngra fólk, stuðningsfólk stjórnarflokkanna var líklegra til að hafa kynnt sér áætlunina heldur en kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna og líkur á að hafa kynnt sér skýrsluna jukust eftir því sem menntun svarenda var meiri og tekjur hærri.
Minnst höfðu stuðningsmenn Bjartrar framtíðar kynnt sér áætlunina. Sextíu prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Bjarta framtíð í dag höfðu kynnt sér áætlun um losun hafta lítið eða ekkert.
Um 90 prósent kjósenda Framsóknar, yrði gengið til kosninga í dag, sögðust ánægð með áætlunina og 94 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Minnstur var stuðningur við áætlunina meðal stuðningsfólks Vinstri grænna, eða 49 prósent.
Könnunin var gerð á netinu, svarhlutfall var 55 prósent og alls var 1431 í úrtaki.