Um 440 manns hafa sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara það sem af er ári, en mikill meirihluti þeirra eru leigjendur í greiðsluvanda vegna skulda annarra en fasteignaskulda. Þannig eru um 320 þessara umsækjenda ekki með fasteignalán. Skuldavandi þeirra er því tilkominn vegna annars konar lána og skuldbindinga, svo sem kreditkortalána, bílalána og námslána. Morgunblaðið greinir frá málinu í dag.
Morgunblaðið hefur eftir Svanborgu Sigmarsdóttur, upplýsingafulltrúa umboðsmanns skuldara, að 80 prósent umsækjenda séu búsett á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögunum. Tæplega 41 prósent umsækjenda býr í Reykjavík, en leiguverð er hæst á höfuðborgarsvæðinu.
Þá fer greiðslugeta umsækjenda minnkandi, en hún hefur aðeins verið um 12.500 krónur á mánuði að meðaltal á þessu ári. Í samtali við Morgunblaðið segir Svanborg það hluta skýringarinnar á minnkandi greiðslugetu að leigjendum sé að fjölga. Þá fari leiguverð hækkandi og vegna þess að leigan er inni í föstum útgjöldum en ekki afborganir af lánum, komi hætti leiga fram sem skert greiðslugeta. Þá séu tekjur fólks sömuleiðis að lækka.
„Þá hefur yngri hópur komið til okkar á þessu ári en áður, oftast er fólk komið í vanda vegna þess að tekjur duga ekki til að endar nái saman. Á nokkrum árum getur myndast skuldahali. Það er alveg sama hversu oft skuldirnar eru gefnar eftir, sumir umsækjendur munu ekki ná endum saman. Við erum að sjá ákveðinn tekjuvanda hjá fólki sem hefur ekki tekjur fyrir framfærslu. Við tökum saman allar tekjur og berum saman framfærsluviðmiðin okkar og reikninga sem fólk þarf að borga. Það er alltaf að hækka hlutfallið sem leitar til okkar með neikvæða greiðslugetu. Þeir einstaklingar hafa ekki tekjur til þess að ná endum saman miðað við fjölskyldustærð og lenda því í þessum skuldavanda,“ segir Svanborg Sigmarsdóttir í samtali við Morgunblaðið.