Verkamannaflokkurinn og Skoski þjóðarflokkurinn mælast samanlagt með 326 þingsæti samkvæmt nýjustu könnun breska blaðsins Guardian, sem gerir nú daglegar skoðanakannanir vegna þingkosninganna sem framundan eru í Bretlandi.
Þessi sætafjöldi myndi tryggja flokkunum tveimur meirihluta í breska þinginu, og þetta er í fyrsta skipti sem Guardian mælir flokkanna tvo með meirihluta.
Á móti hefur fjöldi þingsæta núverandi stjórnarflokkanna, Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata, farið niður fyrir 300 sæti. Flokkarnir næðu því ekki meirihluta í þinginu ef marka má könnunina í dag, ekki einu sinni þótt þau sæti sem minni flokkar eins og UKIP og DUP séu tekin með í reikninginn.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hefur gert það ljóst að hún myndi ekki styðja ríkisstjórn Íhaldsflokksins og myndi kjósa með vantrausti á flokkinn. Það myndi Verkamannaflokkurinn líklega einnig gera. Ef því er bætt við að samkvæmt könnun Guardian næðu Græningjar inn einu þingsæti og welski flokkurinn Plaid Cymru þremur yrði fjöldi þingmanna sem myndi kjósa gegn Íhaldsflokknum 333. Þá er möguleg stjórn stjórnarflokkanna tveggja enn ólíklegri.
Verkamannaflokkurinn fengi 272 sæti samkvæmt nýju könnuninni, Íhaldsflokkurinn 269 og Skoski þjóðarflokkurinn 54. Frjálslyndir demókratar fengju 29. Ef enginn flokkur nær meirihluta í kosningunum gæti samsteypustjórn með fleiri en 322 þingsæti líklega staðist vantraust.