Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra er að láta kanna fýsileika þess að innleiða nýtt samræmt próf í grunnskólum landsins. Prófið ætti að taka á lykilhæfni sem nemendum er ætlað að læra samkvæmt aðalnámskrá. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Tillögur að þessu prófi ættu að vera tilbúnar innan nokkurra mánaða.
„Við viljum ekki að grunnskólinn þróist þannig að það verði öll áhersla lögð á einhver þrjú fög, það er að segja að samræmd fagapróf verði allsráðandi í kerfinu. Þett vegna erum við að horfa til samræmdra prófa sem byggja á lykilþáttum í námskránni en um leið þarf að tryggja að krakkarnir hafi vald á þeim fögum sem við vitum að eru mikilvæg í framhaldsskólanum, til dæmis stærðfræði, ensku og íslensku,“ segir Illugi í Fréttablaðinu í dag.
Menntamálastofnun er jafnframt að rannsaka niðurstöður samræmdra prófa og bera þær saman við skólaeinkunnir í grunnskólum til að kanna hvort einkunnaverðbólga eigi sér stað, eins og umræða hefur verið um að undanförnu.
Ingi Ólafsson, skólameistari í Verzlunarskóla Íslands, hefur viðrað hugmyndir um að koma á inntökuprófum í skólann til að stemma stigu við slíkri verðbólgu. Verzlunarskólinn hefur verið einn vinsælasti skóli landsins lengi.
Illugi segir það skiljanlegt, enda sé þetta spegill að þeirri umræðu sem eigi sér stað á háskólastiginu. „Við höfum enga samræmda mælikvarða, eða þeir eru ekki að virka sem skyldi. Þá er eðlilegt að þeir sem eru að taka við nemendum af einu skólastigi og upp á næsta hafi áhyggjur.“