Ritdeilur tveggja hagfræðinga, doktors Ólafs Margeirssonar og doktors Ásgeirs Daníelssonar, sem jafnframt er forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar Seðlabanka Íslands, hafa vakið athygli að undanförnu, enda hafa þeir tekist á með oft háfræðilegum rökum og stigið nokkuð ákveðið til jarðar í orðvali, ef þannig má að orði komast.
Ólafur efast um vaxtastefnu Seðlabanka Íslands og telur að hún sé ekki að virka, og sé beinlínis frekar að búa til verðbólgu en að slá á hana, eins og markmiðið með henni er. Ásgeir er þessu ósammála og telur að hún sé að virka og að Seðlabanki Íslands sé að nýta vaxtatækið í takt við akademískar kenningar sem seðlabankar um allan heim nota.
Þetta er einfalda myndin sem blasir við, en skylmingar þeirra félaga með rökum, sem hafa verið einkar málefnalegar, eru oft á tíðum erfiðar að skilja fyrir fólk sem ekki hefur bakgrunn eða reynslu af fræðunum.
En það sem almenningur sér hins vegar á þessum deilum þeirra Ólafs og Ásgeirs er að það ríkir síður en svo einhugur um sjálfar grunnstoðir peningastefnunnar í landinu. Með henni á Seðlabanki Íslands að stuðla að stöðugleika samkvæmt lögum og reyna að hemja verðbólgu. Mikill skoðanaágreiningur um sjálf grundvallaratriðin sýnir að sérfræðingar eru alls ekki sammála um hvað sé rétt og rangt og hvernig eigi yfir höfuð að reyna að hemja verðbólguna.
Jón Helgi Egilsson, sem á sæti í bankaráði Seðlabanka Íslands, er einn af þeim sem telur vaxtastefnu Seðlabanka Íslands arfavitlaus og sagði meðal annars í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í október 2011 að nánast óhjákvæmilegt væri að vaxtastefna Seðlabankans leiddi til gengishruns. „Við erum að horfa upp á það, sem er í sjálfu sér ótrúlegt, að það er enginn búinn að læra af reynslunni. Þeir sem hafa stýrt þessu, arkitektar þeirrar peningastefnu sem komið var á fót 2001 – núverandi seðlabankastjóri, aðalhagfræðingur og aðstoðarmaður hans – hafa ekki komið fram og viðurkennt að gerð hafi verið mistök,“ sagði Jón Helgi meðal annars í viðtalinu, og beindi spjótunum að yfirstjórn seðlabankans.
Það er ekki skrítið að fólk sé ekki alveg öruggt með það hvert straumurinn er að fara þegar efnahagsmálin í landinu eru annars vegar, þegar ágreiningur er jafn djúpstæður og raun ber vitni um grundvallaratriði peningastefnunnar. Það er líklega best að vona það besta og reyna að haga sínum persónulegum fjármálum eins skynsamlega og kostur er.