Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, seðlabanka Bretlandseyja, segir enn vera hættu á því að alþjóðleg bankakreppa geri vart við sig á nýjan leika og að fjármálakerfi heimsins séu enn veikburða. Þetta kemur fram í viðtali sem breska ríkisútvarpið BBC tók við King.
„Það fer gegn heilbrigðri skynsemi að halda að við getum haldið vöxtum niðri til eilífðar,“ segir King meðal annars í viðtali við BBC, en Englandsbanki hefur haldið vöxtum við örlítið fyrir ofan núllið í fimm ár frá því fjármálakreppan náði hámarki, í von um að örva hagkerfið og styðja við hagvöxt.
King var á dögunum gestaritstjóri á Radio 4, einni af útvarpsrásum BBC, og tók viðtal við Ben Bernanke, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna, í Washington DC þar sem þeir ræða um stöðu efnahagsmála í heiminum. Viðtalið var birt á vef BBC í dag.
Í viðtalinu ræða þeir um aðgerðirnar sem seðlabankar gripu til fyrir fimm árum og hvernig þær hafa reynst á síðustu árum. Þeir eru báðir sammála um að vel hafi tekist til, og hlutirnir hefðu getað farið á miklu verri veg fyrir heimsbúskapinn. Þá segir Bernanke að ekki hafi verið leyst úr öllum vandamálum ennþá og þau geti orðið illviðráðanleg á nýjan leik.