Losun gróðurhúsalofttegunda dróst saman um 6,5 prósent milli áranna 2019 til 2020 þegar litið er til losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Þetta kemur fram í bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar sem birtust í vikunni en samkvæmt stofnuninni gefa niðurstöður vísbendingu um að áhrif kórónaveirufaraldursins hafi verið afgerandi varðandi minni losun árið 2020.
Það ár voru stærstu einstöku losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands vegasamgöngur, eða 31 prósent, fiskiskip, 19 prósent og iðragerjun búfjár, eða 11 prósent.
Umfang vegasamgangna í losun Íslands, sem og bráðabirgðagreiningar á eldsneytiskaupum leiða í ljós að samdráttur í losun frá vegasamgöngum helgaðist fyrst og fremst af fækkun ferðamanna milli 2019 og 2020. Tölurnar sýna að til þess að tryggja nauðsynlegan samdrátt í losun frá vegasamgöngum er mikilvægt að styðja virka- og loftslagsvænni ferðamáta bæði hjá Íslendingum en ekki síður meðal erlendra ferðamanna, að því er fram kemur hjá Umhverfisstofnun.
Fram kemur hjá stofnuninni að með Parísarsáttmálanum hafi Ísland áður skuldbundið sig til að ná 29 prósent samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005.
„Þess ber að geta að markmið um 29 prósent samdrátt sem fellur undir beina ábyrgð Íslands er tilkomið vegna sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og ESB um að ná 40 prósent samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990, en það markmið hefur verið hækkað í 55 prósent sem krefst endurskoðunar markmiða einstakra hlutaðeigandi ríkja, sem ekki liggur fyrir. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum er losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2020 14 prósent minni en hún var árið 2005,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.