Mengunarmælar sýna að styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) er 1.800 míkrógrömm á rúmmetra á Höfn í Hornafirði og í Skaftafelli. „Búast má við því að svipuð eða hærri gildi séu á svæðinu þar á milli,“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum. Mengunina má rekja til eldgossins í Holuhrauni, eins og kunnugt er.
Hæsta gildi SO2 sem mælst hefur síðan í morgun er 2.200 míkrógrömm á rúmmetra í Suðursveit og á Mýrum, samkvæmt tilkynningunni.
Fólk með undirliggjandi öndunarfæra sjúkdóma er hvatt til þess að hafa sérstakar gætur á líðan sinni og hafa strax samband við lækni ef það finnur fyrir óþægindum.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir mikilli mengun á svæðinu næsta sólarhringinn. Hér að neðan eru upplýsingar sem Almannavarnir hvöttu til þess að yrðu birtar í fjölmiðlum.
Frekari ráðstafanir:
„Ef mengun er mikil og fólk finnur fyrir óþægindum jafnvel þó það dvelji innandyra er hægt að grípa til ráðstafana til að draga úr styrk mengunar innanhúss með því að útbúa einfaldan hreinsibúað.
- Takið 5 gr. af venjulegum matarsóda og leysið upp í 1 lítra af vatni.
- Bleytið einhverskonar klút t.d. viskastykki, þunnt handklæði eða gamaldags gasbleyju í þessari lausn.
- Vindið mesta vatnið úr þannig að ekki leki vatn úr.
- Festið þennan raka klút upp á einhverskonar grind, t.d. þurrkgrind fyrir þvott og festið á öllum hliðum t.d með þvottaklemmum.
- Stillið grindinni upp í því herbergi sem ætlunin er að hreinsa loftið í.
- Til að klúturinn haldi virkni sinni þarf hann að vera rakur og gott er að halda rakastiginu við með því að úða á hann vatni t.d. úr blómaúðabrúsa.
- Til að auka virknina er gott að láta borðviftu blása á klútinn. ATH! viftan er rafmagnstæki, gætið þess að raki úr klútum eða frá úðabrúsanum komist ekki í viftuna. Viftan þarf að standa í öruggri fjarlægð frá klútum, ekki nær en um það bil tvo metra. Alls ekki breiða klútinn yfir sjálfa viftuna.
- Ef vifta er ekki til staðar gerir klúturinn samt gagn sérstaklega ef honum er komið fyrir nálægt ofnum, en loftflæði er meira við ofna en aðra staði í íbúðinni. ATH! Ekki er þörf á að breiða klútinn yfir ofninn, nóg er að hann standi á grind við hliðina á ofninum. Gætið varúðar við rafmagnsofna, aldrei má hindra loftflæði að þeim eða breiða neitt yfir þá.
- Ef langvarandi mengun er til staðar þarf að skola klútinn undir rennandi vatni tvisvar á dag og setja hann aftur í matarsódalausnina.
Að auki er gagnlegt að skrúfa frá kaldri sturtu og hafa sturtuklefann og baðherbergisdyrnar opnar. Þessi aðferð hjálpar til við að hreinsa loftið.“