Jón Garðar Ögmundsson, kenndur við Metro-borgara, var í dag dæmdur í tólf mánaðar fangelsi fyrir meiriháttar skattsvik. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir. Honum var auk þess gert að greiða 70 milljónir króna í ríkissjóð innan fjögurra vikna.
Jón Garðar var ásamt konu ákærður af embætti sérstaks saksóknara fyrir meiriháttar skattsvik í gegnum fyrrum móðurfélag Metro. Þeim var gefið að hafa ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda sem fólkið hafði haldið aftur af launum starfsmanna sinna á árunum 2011 og 2012. Í ákærunni, sem gefin var út 17. júlí, segir að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda sé „samtals að fjárhæð kr. 33.861.435 hvað varðar [konuna sem var ákærð] og 34.960.099 hvað varðar Jón Garðar“. Konan, sem samkvæmt fyrri fjölmiðlaumfjöllun er kærasta Jóns Garðars, var sýknuð í héraðsdómi Reykjavíkur í dag en Jón Garðar gerður ábyrgur fyrir öllum skattsvikunum.
Dæmdur í febrúar fyrir sömu sakir
Þetta var annað málið á skömmum tíma sem sérstakur saksóknari höfðaði á hendur Jóni Garðari fyrir að skila ekki inn opinberum gjöldum sem hann hafði dregið af starfsmönnum sínum. Haustið 2013 var gefin út önnur ákæra á hendur honum fyrir sömu sakir vegna áranna 2009 og 2010. Alls nam upphæðin sem skilaði sér ekki þá 22,5 milljónum króna. Í því máli var Jón Garðar sakfelldur og dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Honum var auk þess gert að greiða 45 milljónir króna í sekt.
Röð gjaldþrota
Jón Garðar rak áður McDonalds-staði á Íslandi í gegnum einkahlutafélagið Lyst ehf. Árið 2009 versnuðu viðskiptakjör það mikið í kjölfar bankahruns að hann ákvað að breyta stöðunum í Metro og komast þannig hjá því að fylgja ströngum stöðlum alþjóðlegu risakeðjunnar um innkaup. Þau brot sem Jóni Garðari var gefið að hafa framið með fyrri skattsvikaákærunni frá því í september í fyrra eiga að hafa verið framin á starfsmönnum Lystar.
Rekstur Metro var seldur frá Lyst yfir til félagsins Lífs og heilsu ehf. í júní 2010 og skömmu síðar fór Lyst í gjaldþrot. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingarblaðinu námu lýstar kröfur í bú Lystar 379,2 milljónum króna. Nánast ekkert fékkst upp í þær.
Afsalað til kærustu að nýju
Skráður eigandi Lífs og heilsu, sem tók við rekstri Metro-staðanna, var konan sem var sýknuð í héraðsdómi í dag, en hún er, samkvæmt fyrri fjölmiðlaumfjöllun, kærasta Jóns Garðars. Síðari ákæran, sem gefin var út í júlí 2014, er vegna meintra skattsvika þeirra tveggja í gegnum það félag. Líf og heilsa seldi rekstur Metró-staðanna til enn eins félags, M-veitinga ehf., haustið 2012. Skömmu síðar var Líf og heilsa svo lýst gjaldþrota. Jón Garðar sagði af þessu tilefni í samtali við Morgunblaðið að kaupverðið á rekstrinum ætti að duga fyrir um 100 milljón króna skuldum Líf og heilsu. Samkvæmt þeim gögnum sem finnast í fyrirtækjaskrá er eina féð sem greitt hefur verið inn í M-veitingar 500 þúsund króna stofnhlutafé.
Samkvæmt frétt í DV um málið var skráður eigandi M-veitinga Jón Heiðar Pálsson, nágranni Jóns Garðars og góður vinur. Í tilkynningu til fyrirtækjaskráar frá því í febrúar 2013 kemur fram að allt hlutafé í M-veitingum hafi verið afsalað til konunnar sem var sýknuð í héraðsdómi. Hún er því í dag eigandi Metró-keðjunnar.