Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), hefur staðfest að hann muni bjóða sig fram til embættis forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).
Platini tilkynnti þetta rétt í þessu, en hann sendi bréf á forseta og aðalritara allra knattspyrnusambanda með aðild að FIFA. Hann segist ætla að hlusta á alla og virða ólík sjónarmið um knattspyrnu víða um heim. Hann segist ætla að sjá til þess að FIFA snúi við blaðinu og endurskoði stjórnarhætti sína.
Sepp Blatter, núverandi forseti FIFA, hefur tilkynnt að hann muni ekki bjóða sig fram á nýjan leik. Hann boðaði til nýrra kosninga um forsetaembættið í byrjun júní, fjórum dögum eftir að hann var endurkjörinn. Spillingarmál gegn stjórnendum FIFA eru nú til rannsóknar í Bandaríkjunum og Sviss.
Kosið verður um nýjan forseta FIFA þann 26. febrúar næstkomandi.