Fylgi Framsóknarflokksins mælist yfir kjörfylgi, í nýrri skoðanakönnun frá MMR, sem er sú fyrsta sem birtist eftir kosningar. Flokkurinn mælist með 17,9 prósent í könnuninni, en fékk 17,3 prósent í kosningunum sem fram fóru á dögunum.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,1 prósent fylgi, sem er rúmum þremur prósentustigum undir kjörfylgi flokksins og Píratar mælast með 11,7 prósent fylgi, sem er rúmum þremur prósentustigum yfir kjörfylgi.
Miðflokkurinn mælist með 3,2 prósent í þessari könnun MMR og hefur aldrei fyrr mælst jafn lágur í nokkurri könnun frá stofnun flokksins árið 2017, en flokkurinn fékk 5,4 prósent atkvæða í kosningunum fyrir mánuði.
Síðan þá hefur einn þingmaður yfirgefið flokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og fleiri flokksmenn, til dæmis varabæjarfulltrúi á Akureyri, sagt skilið við flokkinn.
Vinstri græn mælast með 12,1 prósent fylgi, hálfu prósentustigi undir kjörfylgi en Samfylkingin mælist með 10,1 prósent fylgi, sem er á pari við það sem flokkurinn fékk í kosningunum.
Viðreisn mælist með 10 prósent fylgi, sem er hartnær tveimur prósentustigum yfir kjörfylgi.
Flokkur fólksins hins vegar mælist með 7,8 prósent, prósentustigi undir kjörfylgi.
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 5,5 prósent fylgi, sem hefði dugað flokknum inn á þing, en þangað náði flokkurinn ekki enda var kjörfylgi hans á landsvísu einungis 4,1 prósent.
Næstu alþingiskosningar fara fram árið 2025, að öllu óbreyttu.