Frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála, um náttúrupassa mætir mikilli andstöðu í umsögnum við frumvarpið sem sendar hafa verið atvinnuveganefnd Alþingis. Svo harðlega er náttúrupassi ráðherra gagnrýndur í umsögnunum að jafn útbreidd andstaða við framkomið frumvarp ráðherra á sér vart hliðstæðu.
Á vef Alþingis kemur fram að atvinnuveganefnd þingsins hafi borist 37 umsagnir vegna frumvarpsins um náttúrupassa, en þar vantar inn í umsögn Samtaka atvinnulífsins sem leggjast alfarið gegn náttúrupassanum. Fleiri veigamiklir umsagnaraðilar eru mótfallnir náttúrupassanum, eða styðja hann ekki í óbreyttri mynd, og má þar nefna Alþýðusamband Íslands (ASÍ), BSRB, fjögur sveitarfélög að Reykjavíkurborg meðtaldri, Neytendasamtökin og Umhverfisstofnun. Þá er gagnrýni á útfærslu frumvarpsins og framkvæmd náttúrupassans fyrirferðamikil í umsögnunum sem hafa borist atvinnuveganefnd Alþingis.
Versta leiðin af öllum
Að mati ASÍ er náttúrupassinn síst af þeim leiðum sem færar eru til að afla tekna í ríkissjóð til uppbyggingar og verndunar ferðamannastaða á Íslandi. Þá sé hann viðsnúningur frá almannaréttinum og flæki núverandi gjaldtöku ferðamanna. Auk þess þarfnist hann fjárfestinga í yfirbyggingu, kynningu og markaðssetningu og ekki síður til reksturs þess eftirlits sem nauðsynlegt sé til að ferðamenn framfylgi lögum. Þá gæti slíkt eftirlit reynst flókið og kostnaðarsamt, og mögulega skerða upplifun ferðamanna af landinu.
ASÍ telur að gistináttarskattur, komugjöld eða blönduð leið beggja sé heppilegri til að afla ríkissjóði tekna til uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustunnar. Þá segir í umsögn ASÍ: „Sú hætta er fyrir hendi að án víðtækrar sáttar um gjaldheimtu verði til brotakennt, tvöfalt kerfi þar sem hluti fellur undir náttúrupassa og hluti innheimtir sjálfstætt gjald. Í slíku kerfi er hætta á því að gjaldheimtan rýri upplifun ferðamanna sem hefði neikvæð áhrif á atvinnugreininna til lengri tíma litið.“
Sveitarfélög og stofnanir ekki hlynnt náttúrupassanum
BSRB segir ýmsa ágalla á frumvarpi ráðherra um náttúrupassa, sem feli í sér að greiða þurfi sérstaklega fyrir aðgang að ferðamannastöðum hér á landi. „BSRB telur að um rétt almennings til þess að heimsækja ferðamannastaði og íslenska náttúru skuli almannaréttur lagður til grundvallar svo sem verið hefur yfír lengri tíma. BSRB telur að stjórnvöld hafí úr öðrum leiðum að velja, til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu til að vernda megi náttúru íslands, en þá að óska sérstakrar greiðslu a f hálfu ferðamanna fyrir aðgang að náttúru íslands ella sæti þeir stjórnvaldssektum,“ segir í umsögn BSRB.
Þá leggjast sveitarfélögin Dalabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur alfarið gegn frumvarpi ráðherra ferðamála um náttúrupassa. Í umsögn síðarnefnda sveitarfélagsins segir: „Sveitarstjórn Grímsnes- og Grcifningshrepps lýsir yfir miklum vonbrigðum að á því tœpa ári sem liðið er síðan málið var síðast til efnislegrar meðferðar hafi ekki meira áunnist og að ekki hafi tiííit verið tekið þeirra sjónarmiða sem þá komu fram. Sveitarstjórn hefir sannfœrst ennfrekar um að hafna beri náttúrupassanum enda verður það fyrirkomulag erfitt og flókið í framkvœmd.“
Ísafjarðarbær hefur, í umsögn sinni, miklar efasemdir um ágæti náttúrupassans. „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæ hefur efasemdir um að lög um náttúrupassa samræmist lögum um almannarétt sem lýtur að frjálsri för um landið, en sá réttur á sér djúpar rætur í lögum og menningu Íslands, en þetta ákvæði má finna í Jónsbók. Náttúra landsins er sameign þjóðarinnar en almannarétturinn er trygging landsmanna fyrir að fá að njóta þessarar sameignar,“ segir meðal annars í umsögn bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.
Landvernd lýsir sig mótfallna náttúrupassanum í umsögn sinni, sem og Menntavísindasvið og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá er Neytendasamtökin á móti frumvarpi ráðherra ferðamála, og Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur uppi efasemdir um náttúrupassann og Reykjavíkurborg sömuleiðis. „Reykjavíkurborg hefur hins vegar margvíslegar athugasemdir við það hvernig helstu leiðir að þessum markmiðum eru útfærðar í frumvarpinu og skýringum sem því fylgja og telur Reykjavíkurborg að náttúrupassinn sé ekki heppilegasta leiðin til að ná því markmiði að vernda náttúru Íslands,“ segir í umsögn borgarinnar.
Þá telur Umhverfisstofnun sér ekki fært að styðja frumvarp um náttúrupassann að óbreyttu „Umhverfisstofnun telur mikilvægt að tryggja aukið fjármagn til friðlýstra svæða sem og ferðamannasvæða en telur nauðsynlegt að endurskoða framangreint frumvarp með heildarsýn á verndun íslenskrar náttúru og þarfir ferðaþjónustunnar í huga.“