Mikil fjölgun hefur orðið á komum og innlögnum ósjúkratryggðs fólks á Landspítalann undanfarin ár. Langflestir eru erlendir ferðamenn og aukinn fjöldi ferðamanna hefur því áhrif á eftirspurn og kröfur til heilbrigðisþjónustunnar. Þetta kemur fram í grein Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítalans, í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
„Árið 2010 leituðu alls 2167 ósjúkratryggðir til dag- og göngudeilda spítalans, þar á meðal bráðamóttöku, en árið 2014 hafði þeim fjölgað um 44%, voru 3122,“ skrifar María. Hún segir að í flokk ósjúkratryggðra falli ekki bara erlendir ferðamenn heldur líka þeir sem hafa búið á Íslandi skemur en sex mánuði og njóta því ekki tryggingaverndar, og líka sjúklingar frá Færeyjum og Grænlandi sem vísað er til Landspítalans. En engu að síður er fjölgunin að langmestu leyti vegna aukins fjölda ferðamanna hér á landi.
Ósjúkratryggðum á Landspítalanum fjölgaði um 44% frá 2010 til 2014
„Á sama tíma fjölgaði innlögnum þessa hóps um 19% (úr 283 í 336). Eðli málsins samkvæmt leita langflestir erlendir ferðamenn þjónustu yfir sumamánuðina - þegar mönnun er oft naum vegna sumarleyfa. Árið 2014 áttu 46% af innlögnum ósjúkratryggðra sér stað á þriggja mánaða tíma, júlí-september.“ Áhrifanna af fjölda ferðamanna gætir því enn meira heldur en fjöldatölurnar segja til um, að sögn Maríu, vegna þess að mönnunin á þessum tíma er lítil. „Hugsanlega þyrfti að endurskoða mönnun og annan viðbúnað yfir þau tímabil þar sem álagið er mest,“ segir hún.
Tekjurnar af þjónustunni aukist um 99%
Tekjur spítalans af þjónustu við ósjúkratryggða hafa vaxið verulega á þessu sama tímabili, frá 2010 til 2014, eða um 99% á föstu verðlagi. Tekjurnar voru 167 milljónir króna árið 2010 í 385 milljónir króna í fyrra. Í þeim tölum eru samningar um komu sjúklinga frá Færeyjum og Grænlandi á spítalann.
„Þó svo þessar tekjur séu vissulega umtalsverðar og vaxandi er þjónusta við erlenda sjúklinga að meðaltali tímafrekari og kostnaðrasamari en almennt gerist,“ segir María. Þetta er meðal annars vegna þess að umsýslan er meiri. Oft þarf að kalla til túlka og samskipti taka lengri tíma en annars, hafa þarf samráð við lækna sjúklinga heima fyrir og það getur verið tímafrekt og ef þeir uppfylla skimunarskilmerki vegna ónæmra baktería þarf að taka úr sjúklingum sýni og hafa þá í einangrun. Auk þess þarf að skrá upplýsingar vegna tryggingamála og oft að aðstoða við heimferð.
Þá er innheimta erfið og dýr að sögn Maríu, en tekið hefur verið á skráningu og gerð reikninga, sem eru gefnir út á ensku og þeim fylgt sérstaklega eftir.
„Að sjálfsögðu er það keppikefli allra að veita sem besta þjónustu óháð því hvaðan sjúklingurinn kemur en huga þarf sérstaklega að ákveðnum þáttum [...] gagnvart þessum sjúklingahópi, ekki síst ef fjölgun ferðamanna heldur áfram á sömu braut. Tryggja verður að bæði heimamenn og hinir erlendu gestir hafi áfram aðgang að góðri og öruggri þjónustu.“ Þá segir María það lykilatriði að tryggja að þjónusta við erlenda ferðamenn standi undir sér og kalli ekki á niðurgreiðslu frá skattgreiðendum. „Ef vel er að málum staðið geta falist í þessu tækifæri fyrir veitendur þjónustunnar og aukið framboð á þjónustu fyrir heildina.“