Seðlabanki Íslands hefur þurft að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir að krónan styrkist meira en hún hefur gert að undanförnu. Á um fjórum vikum hefur hún styrkst um fimm prósent gagnvart evru en um tæplega sjö prósent sé litið nokkra mánuði aftur. „Við erum að leggjast jafn þungt ef ekki þyngra en áður, en það er bara meiri straumur,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, á fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í gær.
Nú þegar líður að framkvæmd áætlunar um losun hafta, er myndin tekin að skýrast. Svo virðist sem mun meiri hætta sé á því nú, að gengi krónunnar rísi hratt fremur en að það veikist. Ekki er langt síðan að umræðan, ekki síst hjá stjórnmálamönnum, var um það að krónan myndi veikjast mikið við losun hafta, en nú er staðan önnur.
Það versta er, að hagstjórnartækjunum hefur ekki verið beitt skynsamlega að undanförnu, til þess að undirbúa hagkerfið fyrir það sem framundan er. Margt bendir til þess að kjarasamningarnir, sem tóku ekki síst miðað við af samningum ríkisins við starfsmenn, séu beinlínis hættulegir hagkerfinu. Engin innistæða er fyrir 20 til 30 prósent launahækkun hjá flestum stéttum, enda þekkist slíkt hvergi í þróuðum ríkjum. Ef það væri innistæða fyrir slíkum hækkunum, þvert á línuna, þá væri allt fljótandi í peningum á Íslandi, og ríki og sveitarfélög skuldlaus. Því miður er það ekki raunin, og því fer fjarri. Auk þess hefur verðbólga haldist lág að undanförnu útaf þróun sem kemur séríslenskum aðstæðum lítið við. Um 60 prósent verðlækkun á olíu á tíu mánaða tímabili, hefur smitandi áhrif á verðlag, og hefur stuðlað að lágri verðbólgu, sem hefur verið undir 2,5 prósent markmiði í 20 mánuði. Enginn veit hvort olíuverðið muni sveiflast hratt upp aftur eða ekki, þó flestar spár geri ráð fyrir að það haldist í lægra lagi, sögulega.
Stjórnmálamenn, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur - allir þeir sem sátu við borðið - skulda almenningi skýringar á þessari stöðu. Það er ekki nóg að segja, þegar óveðurskýin fara að hrannast upp og spennan verður augljós í hagkerfinu með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun, að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna. Þau verða að svara því hvers vegna Ísland hefur efni á því að hækka laun allra um 20 til 30 prósent, en svo til engin önnur þjóð. Eru þau að halda því fram að Ísland sé best í heimi? Á að gera það aftur?
Ríkissjóður mun brátt fá til sín nálægt 400 milljörðum króna vegna uppgjörs slitabúa föllnu bankanna, og þá mun reyna á stjórnmálamennina. Hvað ætla þeir að gera við þessa peninga? Í ljósi þess að þeir voru tilbúnir að dreifa 80 milljörðum ofan á fasteignamarkað á höfuðborgarsvæðinu í hraðri uppsveiflu, þá veit maður aldrei hvað þeir munu gera við peningana. Mikil hætta er á ofrisi kerfisins og krónunnar, og verða þeir að fara varlega. En maður veit aldrei hvað þeir gera, enda eiga þeir allt sitt undir vinsældum kjósenda og haga seglum eftir þeim vindum.