Seðlabanki Sviss kom mörgum í opna skjöldu í morgun með því að hætta að tengja gengi svissneska frankans við evruna og lækka stýrivexti enn frekar. Stýrivextirnir voru lækkaðir um 0,5 prósent, og eru nú -0,75 prósent.
Undanfarin ár hefur frankinn verið tengdur við evruna, þannig að gengi frankans sé alltaf 1,2 sinnum hærra en evra. Lækkandi gengi evrunnar undanfarið hefur haft það í för með sér að búist var við því að á endanum þyrfti Sviss að hætta að tengja frankann við evruna. Það er hins vegar aðeins mánuður síðan bankinn sagðist ætla að halda sig við fastgengisstefnuna og því kom tímasetningin á tilkynningunni í morgun mörgum á óvart.
Í tilkynningunni frá svissneska seðlabankanum kemur fram að fastgengi hafi verið tekið í notkun þegar mikil óvissa ríkti á fjármálamörkuðum og að það hafi komið í veg fyrir miklar hremmingar svissneska hagkerfisins. Gengið hafi þá verið mjög yfirverðlagt, en gripið var til aðgerðanna í september 2011. „Þótt gengi svissneska frankans sé ennþá hátt þá hefur yfirverðlagningin minnkað frá því að við kynntum lágmarksgengið. Hagkerfið gat nýtt sér þetta tímabil til þess að venjast nýjum aðstæðum,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að nýlega hafi breytingar orðið á peningamálastefnum stærstu gjaldmiðlasvæðanna og búast megi við því að það aukist á næstunni. Evran hafi veikst talsvert gagnvart Bandaríkjadal og það hafi haft sömu áhrif á gengi frankans gegn Bandaríkjadal. Í þessum aðstæðum sé ekki hægt að réttlæta fastgengisstefnu lengur.
Þar er átt við aðgerðir sem búist er við að Evrópusambandið ráðist í í næstu viku til þess að örva hagkerfið á evrusvæðinu. Meðal annars er búist við því að tilkynnt verði um stórtæk kaup á ríkisskuldabréfum. Aðgerðirnar eru taldar verða virði einnar trilljónar evra. Margir búast við því að þá muni gengi evrunnar lækka enn frekar.
Dýfur á mörkuðum
Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hrundu í kjölfar tilkynningarinnar, en náðu flestir jafnvægi á ný fyrir lokun. Undantekningin frá því var svissneski markaðurinn sem tók stærstu dýfu sína í 25 ár. SMI vísitalan hafði lækkað um 8,67 prósent við lok dagsins.
Úraframleiðandinn Swatch lækkaði um 15 prósent á mörkuðum og í viðtali við BBC líkti framkvæmdastjóri félagsins, Nick Hayek, ákvörðun seðlabankans við flóðbylgju sem hefði skollið á svissnesku efnahagslífi.
Þegar tilkynnt hafði verið um aðgerðir seðlabankans í morgun hrundi evran um tæplega 30 prósent gagnvart frankanum en náði sér svo aðeins á strik. Lækkunin nemur nú 13 prósentum. Breytingin á gengi frankans gagnvart íslensku krónunni var 15,30 prósent, í gær var gengið 127,770 en í lok dagsins í dag var það orðið 147,320, samkvæmt Seðlabanka Íslands.