„Hryðjuverkaárás“ segir Francois Hollande um skotárásina í París í hádeginu, sem er mannskæðasta hryðjuverkaárás í Frakklandi í tvo áratugi. „Árás á helstu gildi og hugsjónir franska lýðveldisins.“
Skotárásin í hádeginu virðist hafa verið vel undirbúin og þaulhugsuð. Árásarmennirnir sem komust undan, virðast hafa verið þrautþjálfaðir hermenn. Vopnaðir hríðskotarifflum myrtu þeir tíu blaðamenn skopamyndablaðsins Charlie Hebdo og tvo lögreglumenn. Charlie Hebdo er háðsádeilublað sem hefur gert miskunnarlaust grín að stjórnmálamönnum, atvinnurekendum, trúarbrögðum og raun öllu í gegnum tíðina.
Skopmyndir og ádeilugrín á sér langa hefð í Frakkalandi og þess vegna hefur blaðið ekki hikað við að birta myndir af Múhameð spámanni í gegnum tíðina þrátt fyrir margítrekaðar hótanir herskárra múslima. Ekki er enn vitað hver ber ábyrgð á árásinni en blaðið birti nýlega skopmynd af leiðtoga Íslamska ríksins, Abu Bakr al-Bagdad.
Skopmyndin af Abu_Bakr-al-Bagdad.
Hæsta viðbúnaðarstig er í gangi í París þessa stundina. Forseti Frakklands, Francois Hollande, tjáði fjölmiðlum fyrir stundu að margítrekaðar hryðjuverkatilraunir hefðu verðu stöðvaðar af lögreglu og leyniþjónustunni í París undanfarnar vikur. Hann mætti á vettvang stuttu eftir árásina og sagði þetta vera árás á málfrelsið; ógn við helstu grundvallargildi franska lýðveldisins.
Þetta er áfall fyrir íbúa Parísar, áfall fyrir starfandi blaðamenn. Sextíu blaðamenn um allan heim voru myrtir á síðasta ári – nú bætast tíu í hópinn.
Ógn og uppganga öfgahópa virðist vera á mikilli uppleið og eitt helsta einkenni 21. aldarinnar. Fjöldamorðin í dag eiga að hræða og ógna blaðamönnum sem þora og ögra; hindra upplýsingaflæði og hefta málfrelsi. Drepa grín, ádeilu og gagnrýni. Það virðist alla vega í fyrstu vera tilgangur þessarar árásar. Það er því afar sérkennilegt andrúmsloft í París þessa stundina; mikil reiði og sorg.