Takist að greiða niður skuldir með því fé sem fæst í tengslum við losun gjaldeyrishafta, þá munu vaxtagjöld ríkissjóðs lækka verulega. Ef skuldir verða niðurgreiddar um 640 milljarða króna þá gæti það leitt til um 35 milljarða árlegrar lækkunar á vaxtagjöldum ríkissjóðs. Miklar skuldalækkanir sem þessar eru þó vandmeðfarnar, að mati hagfræðideildar Landsbankans. „Gæta þarf þess sérstaklega að ráðstöfun þessara fjármuna hafi ekki óæskileg áhrif á peningamagn í umferð eða önnur áhrif sem gætui stuðlað að þenslu og dregið úr verðstöðugleika,“ segir í hagsjá hagfræðideldar Landsbankans.
Farið er yfir skuldastöðu ríkissjóðs en heildarskuldir við árslok 2014 námu um 1.485 milljörðum króna. Til viðbótar er ótalin 430 milljarða króna skuldbinding ríkissjóðs við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR. Að þeim meðtöldum nema skuldir ríkissjóðs um 1915 milljörðum króna sem samsvarar um 96 prósent af landsframleiðslu Íslands á síðasta ári. Af þessum skuldum voru 1.500 milljarðar í íslenskum krónum en andvirði 415 milljarða króna í erlendri mynt. Af innlendum skuldum voru 240 milljarðar skulda í ríkisbréfum í eigu lífeyrissjóða. Að meðtaldri 430 milljarða skuldbindingu gagnvart LSR er eign lífeyrissjóðanna af skuldum ríkisins því um 63 prósent eða 34 prósent heildarskulda.
Fleiri hafa bent á möguleg áhrif niðurgreiðslu ríkisskulda í tengslum við losun hafta. Fjármálaeftirlitið fjallaði sérstaklega um möguleg áhrif á fjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóði, í umsögn sinni við frumvarp fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt. Kjarninn fjallaði um umsögn eftirlitsins í síðustu viku. Að mati FME þarf að skoða sérstaklega hvort bregðast þurfi við ýmsum hliðaráhrifum vegna stöðugleikaskatts- eða framlags. Hliðaráhrif gætu orðið neikvæð hvað varðar fjárfestingarmöguleika fjárfesta vegna lækkunar á skuldum ríkissjóðs og tilheyrandi áhrifum á framboð ríkisskuldabréfa.