Alls vilja 81,34 prósent landsmanna að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, reki sjúkrahús landsins. Einungis 1,6 prósent vilja að einkaaðilar reki sjúkrahúsin fyrst og fremst. Þá vilja 67,6 prósent þjóðarinnar, rúmlega tveir af hverjum þremur landsmönnum, að hið opinbera reki heilsugæslustöðvar landsins. Einungis 3,3 prósent vilja að einkaaðilar sjái einir um þann rekstur. Rúmur meirihluti Íslendinga, 58,4 prósent, er þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi eitt að reka hjúkrunarheimili landsins, en einungis 3,3 prósent aðspurðra telur að einkaaðilar eigi alfarið að sjá um rekstur þeirra.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Kostnaður við gerð könnunarinnar var greiddur af BSRB.
Könnunin var gerð í mars 2021. Alls svöruðu 842 meðlimir í netpanel Félagsvísindastofnunar könnuninni, um 43 prósent þeirra sem fengu könnunina. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá og er tryggt að dreifing aldurs, kyns, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem gerist meðal landsmanna.
Ekki mikill áhugi á blönduðum rekstri
Ekki virðist vera mikill salur fyrir blönduðum rekstri helstu heilbrigðisstofnana samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar. Einungis 17,1 prósent aðspurðra taldi að einkaaðilar og hið opinbera ættu til jafns að reka sjúkrahús og 29,2 prósent töldu að þessi tvö ólíku rekstrarform ættu að viðgangast í rekstri heilsugæslustöðva.
Þegar spurt var um rekstur hjúkrunarheimila var meiri áhugi á blöndunum rekstri en á hinum tveimur tegundum heilbrigðisstofnana, en 37,9 prósent landsmanna töldu að einkaaðilar og opinberir aðilar ættu að reka hjúkrunarheimili landsins.
Á Íslandi í dag fyrirfinnst blandaður rekstur á flestum sviðum heilbrigðisþjónustu. Reknar eru læknamiðstöðvar í einkaeigu þar sem meðal annars eru framkvæmdar aðgerðir, hluti hjúkrunarheimila eru í eigu annarra en hins opinbera og sömu sögu er að segja af heilsugæslustöðvum.