Íbúðafjárfesting hefur dregist töluvert saman á síðustu mánuðum, en búist er við því að hún verði 8,4 prósentum minni á þessu ári heldur en hún var í fyrra. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu, sem var birt samhliða birtingu fjárlagafrumvarpsins í vikunni.
Samkvæmt Hagstofu jókst íbúðafjárfesting verulega á árunum 2016 til 2019, samhliða mikilli fjölgun íbúa og ferðamanna. Í fyrra dró svo verulega úr þessum vexti og mældist hann 1,2 prósent. Vöxturinn var þá aðallega drifinn áfram af mikilli aukningu fullgerðra íbúða, en töluverður samdráttur varð á íbúðum á fyrri byggingarstigum á sama tíma.
Vegna fárra nýrra íbúðarverkefna árið 2020 eru því mun færri íbúðir í byggingu á seinni byggingarstigum í ár. Þessi þróun hefur leitt til þess að heildarmagn íbúðafjárfestingar hefur dregist saman töluvert á síðustu mánuðum, líkt og kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofu sem einnig voru birtir í vikunni.
Þróun íbúðafjárfestingar má sjá á mynd hér að neðan. Samkvæmt henni er búist við 8,4 prósenta samdrætti í ár, eftir sex ár af samfelldri aukningu. Á næstu árum er þó búist við að fjárfestingin muni halda áfram að aukast, þar sem vísbendingar eru um að íbúðum á fyrri byggingarstigum hafi fjölgað á síðustu mánuðum.
Samkvæmt Þjóðskrá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað um 2.980 talsins það sem af er ári. Ef íbúðum fjölgar á sama hraða út árið má búast við að þeim fjölgi um rúmlega 3.200 talsins í ár, sem er nokkuð minna en fjölgunin í fyrra, en þó svipuð og á árinu 2019. Tvær af hverjum þremur nýjum íbúðum er á höfuðborgarsvæðinu.
Hærra verð og færri íbúðir á sölu
Íbúðaverð í október var 17,1 prósentum hærra en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt vísitölu Þjóðskrár. Nokkuð af þeirri verðhækkun átti sér stað í lok síðasta árs, en það sem af er ári hefur verðið hækkað um rúm tólf prósent.
Samhliða verðhækkununum hefur íbúðum sem eru til sölu á landinu fækkað. Líkt og kemur fram í síðustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) hefur fjöldi auglýstra eigna minnkað með hverjum mánuði frá síðasta vori. Í maí árið 2020 voru tæplega fjögur þúsund íbúðir auglýstar til sölu, en í október voru þær aðeins um 1.320.
Mest hefur fækkunin verið á íbúðum í fjölbýlishúsum á tímabilinu, en hún nam 61 prósenti á höfuðborgarsvæðinu og 66 prósentum á landsbyggðinni.