Meðalverð á flugi til Boston með Icelandair er 116 þúsund krónur en er 50 þúsund krónum ódýrara með WOW Air, eða 66 þúsund krónur, samkvæmt verðkönnun DoHop á helstu flugleiðum næstu vikurnar. Í samanburði er gert ráð fyrir einum farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er léttari en fimm kíló.
Mánaðarleg verðkönnun DoHop leiddi í ljós 11,4 prósenta hækkun á flugverði milli mánaða. Mest hækkaði flugfargjaldið til Parísar, það var áður 60.129 krónur en er núna 70.109 krónur. Í könnuninni eru þrjár dagsetningar til brottfarar kannaðar vikulega, ein eftir tvær vikur, önnur eftir fjórar vikur og sú þriðja eftir átta vikur.
Súluritið að ofan sýnir verðsamanburð milli flugfélaga á flugi til sjö borga. Fram kemur í verðkönnun DoHop að flug til Kaupmannahafnar og Parísar hafi hækkað næstu vikur miðað við meðalverð síðustu vikna. Aftur á móti er ódýrara að fara til Manchester borgar og Boston. „Áhugavert er að sjá áhrif WOWair á flugverð til Boston sérstaklega, en það er að jafnaði heilum 50.000 krónum ódýrara að fljúga með WOWair en Icelandair, jafnvel þótt Icelandair rukki ekki fyrir töskur eða handfarangur,“ segir í tilkynningu frá DoHop, en samnefnd vefsíða er svokallaður flugsamanburðarvefur. Þá kemur fram að EasyJet bjóði ódýrasta flugið til þeirra áfangastaða í Bretlandi sem flugfélagið flýgur til frá Íslandi.