Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra segist leggja mikla áherslu á að ná sátt um þau gjöld sem sjávarútvegurinn greiðir. Ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja, samhliða verulega aukinni arðsemi greinarinnar næstu 10 ár, renni til þjóðarinnar – eiganda auðlindarinnar.
Þetta var meðal þess sem kom fram í yfirlitsræðu formannsins á flokksþingi Framsóknarflokksins sem haldið er á á Grand hótel í Reykjavík í dag.
Hann sagði að íslenskur sjávarútvegur væri í fremstu röð í heiminum og að Ísland væri eitt af fáum löndum sem ekki styddi við greinina með ríkisstyrkjum.
„Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa líka náð undraverðum árangri í því að draga úr kolefnislosun í greininni að ekki sé minnst á þann mikla metnað og árangur sem hefur náðst í nýtingu sjávarfangs. Þar er samspil þessarar hefðbundnu greinar við nýsköpun eftirtektarvert. Íslenskur sjávarútvegur er hátæknigrein þar sem nýjasta tækni, oft fundin upp innan íslenskra fyrirtækja, er nýtt til að auka verðmæti sjávarafla. Sú hugsun er gríðarlega mikilvæg þegar um er að ræða auðlind þjóðarinnar,“ sagði hann.
Þjóðareign auðlinda verði skýrð í stjórnarskrá Íslands
Benti Sigurður Ingi á að ljóst væri að fullkominn friður hefði ekki ríkt um greinina á Íslandi.
„Það er sjálfstætt vandamál. Ofurhagnaður einstakra fyrirtækja og sífellt aukin ítök sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum greinum er eitthvað sem við í Framsókn höfum haft áhyggjur af. Við höfum lagt mikla áherslu á að þjóðareign auðlinda verði skýrð í stjórnarskrá Íslands. Því miður hefur stjórnmálaflokkunum ekki auðnast að ná samhljómi um stjórnarskrárbreytingar en við munum leggja okkar af mörkum til að staðfesta það í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum, eins og aðrar auðlindir landsins, séu í eign þjóðarinnar.
Við munum líka leggja mikla áherslu á að ná sátt um þau gjöld sem sjávarútvegurinn greiðir, ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja, samhliða verulega aukinni arðsemi greinarinnar næstu 10 ár, renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Við erum til í samtalið um hvernig þessi sátt, sem er nauðsynleg, ekki síst fyrir greinina sjálfa – náist,“ sagði hann og bætti því við að mikilvægt væri að ná samstöðu um réttlátari skiptingu á hagnaði af sjávarauðlindinni.
Áhyggjur af því hvað eignarhald í fiskeldi sé á fárra höndum
Sigurður Ingi nefndi aðra atvinnugrein í ræðu sinni sem hann sagði að byggst hefði hratt upp og nýtt auðlindir landsins: Fiskeldið.
„Það hefur verið ævintýri líkast að sjá öfluga starfsemi byggjast upp í fjörðum austan lands og á Vestfjörðum, að ekki sé talað um metnaðarfullt landeldi víða um land. Um allan heim hefur fiskeldi vaxið – enda hagkvæmasta prótein uppsprettan og sú sem veldur minnsta kolefnisfótspori.
Hins vegar höfum við í Framsókn orðað áhyggjur okkar af því hvað eignarhald í fiskeldi er á fárra höndum. Það getur ekki gengið til lengdar að stór hluti fiskeldis við Íslands strendur sé í eigu fárra erlendra aðila. Við þurfum að stíga örugg skref í átt til þess að tryggja dreift íslenskt eignarhald í þessari ört vaxandi grein,“ sagði hann.