Greina má miklar sveiflur í hagtölum Seðlabanka Íslands þegar kemur að millibankalánum og innlánm frá öðrum en lánastofnunum. Eins og sést á meðfylgjandi myndum jukust millibankalán gríðarlega, á síðasta mánuði ársins. Þau námu 36 milljörðum í nóvember 2014, en voru 183,5 milljarðar mánuði síðar.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Seðlabanka Íslands vegna þess, og fengust ekki svör við því hvað skýrir þessar sveiflur. „Varðandi millibankamarkaðinn, þá eru þetta bara viðskipti á milli lánastofnana. Það er nokkuð augljóst að það verða oft miklar sveiflur á þessum markaði – en við getum ekkert skýrt nánar frá þeim hreyfingum sem stendur – vegna 35. greinar seðlabankalaga,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri hjá Seðlabanka Íslands. Lagagreinin sem vísað er til tekur til þagnarskyldu.
Grafið yfir millibankalán, eins og það birtist í hagtölunum.
Greina má einnig miklar breytingar á tölum sem sýna innlán annarra en lánastofnanna, þar á meðal eignarhaldsfélaga. Í september í fyrra námu innlánin 261 milljarði króna, en í lok ársins voru þau komin í 343 milljarða. Samkvæmt svörum Seðlabanka Íslands er breyting á skráningu talna frá þrotabúi Landsbankans um að kenna.
„Breytingin á innlánum frá eignarhaldsfélögum skýrist af breytingu á starfsleyfi þrotabús Landsbankans, en starfsleyfi hans sem innlánsstofnunar var innkallað og í kjölfarið flokkast þrotabúið sem eignarhaldsfélag samkvæmt þeim stöðlum sem við vinnum eftir,“ segir í svörum Stefáns Jóhanns við fyrirspurn Kjarnans um þetta efni.
Innlán annarra en lánastofnanna aukast jafnt og þétt.