Að jafnaði voru 202.200 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði í júní, sem jafngildir 86,6 prósent atvinnuþátttöku. Af þeim voru 196.400 starfandi og 5.800 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuleysi var því 2,9 prósent í mánuðinum, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrir júnímánuð. Fram kemur í frétt Hagstofunnar að samanburður mælinga fyrir júní 2014 og 2015 sýnir að atvinnuþátttaka jókst um 1,3 prósentustig og hlutfall starfandi fólks af mannfjölda jókst um 2,7 stig. Fara þarf aftur til júní 2008 til að finna hærra hlutfall starfandi fólks.
Atvinnulausum fækkaði milli ára um 3.200 manns en alls voru 5.800 atvinnulausir í júní síðastliðnum. Hlutfall atvinnuleysis er 1,7 prósentustigum lægra í júní 2015 en júní 2014. Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar má sjá að atvinnuleysi hefur ekki verið lægra síðan í október árið 2008. Þá mældist atvinnuleysi 2,4 prósent. Frá þeim tíma hefur atvinnuleysi þó nokkrum sinnum mælst á bilinu 3,1 til 3,5 prósent. Töluverðar árstíðarsveiflur eru í atvinnuleysistölum, eins og seinna grafið hér að neðan sýnir, minnst er það jafnan á sumrin.
Fyrra grafið sýnir þróun á fjölda atvinnulausra og mælt atvinnuleysi í júnímánuði á árunum 2008 til 2015.
Vegna mikilla árstíðarsveiflna eru birtar tölur um árstíðarleiðrétt atvinnuleysi. „Árstíðaleiðrétting er tölfræðileg aðferð sem leitast við að aðgreina árstíðabundnar sveiflur frá óreglulegum breytingum. Árstíðaleiðréttingin gerir samanburð á milli samliggjandi mánaða mun raunhæfari og segir betur um hvert tölurnar stefna,“ segir Hagstofan.
Fram kemur á vef Hagstofunar að árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mældist 3,2 prósent í júní. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 190.800 í júní 2015 sem jafngildir 83,2% atvinnuþátttöku, sem er 0,2 prósentustigum hærri en hún var í maí. Fjöldi atvinnulausra í júní var samkvæmt árstíðaleiðréttingu 6.100 sem er fækkun um 2.500 manns frá því í maí. Hlutfall atvinnulausra minnkaði úr 4,4% í maí í 3,2% í júní. Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júní 2015 var 80,5%, sem er aukning um 1,3 prósentustig frá því í maí. Leitni vinnuaflstalna sýnir að atvinnuleysi hefur lækkað um 0,2 prósentustig sé horft til síðustu sex mánaða og um 0,8 stig á síðustu tólf mánuðum. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur aukist um 0,6 prósentustig og um 1,2 stig síðustu tólf mánuði.
Júní 2015 nær til fjögurra vikna, frá 1. til 29. júní. Úrtakið var 1.212 einstaklingar á aldrinum 16–74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 1.193 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 939 einstaklingum sem jafngildir 78,7% af endanlegri svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Vikmörk mánaðarlegra niðurstaðna um atvinnuþátttöku eru ±2,0, hlutfall starfandi ±2,2 og atvinnuleysi ±1,2. Allar fjöldatölur eru afrúnaðar að næsta hundraði.