Matælainnflytjendur hafa orðið fyrir milljóna tjóni vegna þess að vörur þeirra fengu aldrei afgreiðslu úr tolli á meðan verkfalli BHM stóð síðustu mánuði. Starfsmenn Matvælastofnunnar hafa eftirlit með innfluttum matvælum á borð við osta og aðrar mjólkurvörur en voru í verkfalli svo vörurnar runnu út á hafnarbakkanum.
Innflutningsfyrirtækið Innnes ehf. fór fram á það við atvinnuvegaráðuneytið að tollkvóti verði framlengdur um jafn langan tíma og verkfallið stóð. Ráðuneytið hefur synjað þeirri beiðni.
Í samtali við Kjarnann segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, að Innnes ehf. sé eina fyrirtækið sem hann hafi vitneskju um að hafi reynt á að fá framlengingu tollkvótans. Tjón fyrirtækisins hlaupi á mörgum milljónum króna vegna þessa og að nú geti sum fyrirtæki ekki fullnýtt innflutningskvóta sinn á búvörum. Ekki sé útilokað að fleiri innflutningsfyrirtæki hafi lent í því sama og Innnes.
„Þessi viðbrögð atvinnuvegaráðurneytisins eru því miður enn eitt dæmið um að ráðuneytið sýnir hámarksstífni og forðast eins og heitan eldinn að hliðra til fyrir þeirri litlu erlendu samkeppni sem innlendir búvöruframleiðendur fá,“ segir Ólafur í frétt á vef félags atvinnurekenda og bætir við að löngu sé orðið tímabært að endurskoða innflutningsheimildir á búvörum.
Tollkvótinn sem Innnes ehf. vildi fá framlengdann er gefinn út samkvæmt samningum Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina. Á vef félags atvinnurekenda segir að venja sé að ráðuneytið framlengi heimildir til innflutnings á lægri tollum út júlí svo hægt sé að koma sendingum til landsins. Óskað hafi verið eftir átta vikna framlengingu á innflutningsheimildum á ostum, en því synjað.