Minjastofnun Íslands telur að Borgarlína muni hafa verulega neikvæð áhrif á friðuð og friðlýst hús í elstu hverfum Reykjavíkur og að ekki fáist séð að Borgarlínan komist fyrir, „eins og hún virðist hugsuð“, án þess að hafa veruleg áhrif á byggðamynstrið í elsta hluta Reykjavíkur og víðar.
Við það segist stofnunin gera athugasemdir, í umsögn sinni við vinnslutillögur Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar að breytingum á aðalskipulagi vegna fyrstu lotu Borgarlínu, sem lagðar voru fram til kynningar í vor.
Tímafrekar fornleifarannsóknir þurfi að fara fram
Í umsögn stofnunarinnar, sem send var til sveitarfélaganna og inn í samráðsgátt stjórnvalda undir lok maímánaðar, segir einnig að von sé á því að það muni þurfa að fara fram „miklar og tímafrekar fornleifarannsóknir víða þar sem línan liggur, en þó fyrst og fremst í miðbæ Reykjavíkur.“ Þá sé gróflega áætlað af hálfu stofnunarinnar að lagning fyrstu lotu Borgarlínu um miðborgina muni hafa áhrif á um 100 hús.
Stofnunin gerir athugasemdir við að það sem lagt hafi verið fram um legu og umfang Borgarlínu til þessa sé að nokkru leyti óljóst. Minjastofnun geti því ekki að öllu leyti tekið raunsanna afstöðu til þess sem óskað er umsagnar um af hálfu sveitarfélaganna tveggja.
Einnig eru gerðar athugasemdir við að einungis sé óskað eftir umsögnum um breytingar vegna fyrirhugaðrar fyrstu lotu Borgarlínu, sem á að liggja á milli Ártúnshöfða og Hamraborgar. Að mati Minjastofnunar hefði verið betra að kynnt væri „heildaráætlun um verkefnið sem hægt væri að taka afstöðu til,“ en til stendur að borgarlínuverkefnið verði unnið í lotum fram á næsta áratug.
Þá gerir Minjastofnun líka athugasemdir við að búið sé að gera samninga um hönnun fyrstu lotu Borgarlínu áður en stofnunin geti brugðist við minjaskráningu út frá fornminja-, húsa- og mannvirkjaskráningu. Stofnunin minnir líka á að það að óheimilt sé að veita framkvæmdaleyfi áður en slík skráning með tilliti til minja hafi farið fram og fengið samþykki stofnunarinnar.
„Slíkar upplýsingar geta vissulega haft áhrif á lagningu Borgarlínu,“ segir í umsögn Minjastofnunar.
Breidd gatnanna vefst fyrir Minjastofnun
Kjarninn fjallaði ítarlega um þá mynd sem dregin var upp af væntri legu Borgarlínu er frumdragaskýrsla vegna fyrstu lotu verkefnisins kom út í byrjun febrúar á þessu ári. Í umræðum misserin þar á undan hafði einmitt verið mikið fjallað um hvernig ætti að koma sérrýminu fyrir borgarlínuleiðir fyrir í gegnum elsta hluta Reykjavíkur.
Eins og fram kom í frumdragaskýrslunni er það þó ekki raunin að hugmyndir geri ráð fyrir því að vagnar Borgarlínu verði í sérrými er þeir þræða sig um elsta hluta Reykjavíkurborgar, heldur er ráðgert að hönnunin og umferðarskipulagið taki mið af aðstæðum á hverjum stað.
Í umsögn Minjastofnunar, sem Kristín Huld Sigurðarsdóttir forstöðumaður undirritar, er þó vísað til myndar af svokölluðu kjörsniði Borgarlínu, sem sjá má hér að neðan.
Þar er sérakrými fyrir borgarlínuvagna fyrir miðju, tvær sérakreinar fyrir einkabíla og hjólastígar beggja megin götunnar, auk gangstétta. Segir í umsögn Minjastofnunar að það fáist ekki betur séð en að það þurfi 34,5 metra breitt svæði til þess að götusnið geti verið með þessum hætti.
„Í miðbæ Reykjavíkur, þar sem er fjöldi friðaðra og og friðlýstra húsa, eru götur það þröngar að ekki er pláss fyrir borgarlínu götur eins og þær eru kynntar [á áðurnefndri mynd],“ segir í umsögn stofnunarinnar.
Þar segir ennfremur að breidd Hverfisgötu sé mest um 15,5 metrar, Lækjargötu 29 metrar, Fríkirkjuvegs 21 meter og Vonarstrætis 13,4 metrar. „Suðurgata, þar sem eru bæði friðuð og friðlýst hús og að auki friðaður kirkjugarður (Hólavallagarður), er einungis 10 m breið. Skothúsvegur er aðeins 12,5 m breiður. Teikningar af biðstöðvum, eins og við Hverfisgötu, benda til mikilla áhrifa á húsin við götuna. Ekki fæst séð hvernig á að koma Borgarlínu fyrir á þessum svæðum án þess að hún hafi veruleg neikvæð áhrif á friðuðu og friðlýstu húsin, Hólavallagarð og borgarásýndina í miðbænum,“ segir í umsögn Minjastofnunar.
Það sem segir þó í þeirri tillögu Reykjavíkurborgar sem Minjastofnun er að taka afstöðu til er að þegar komið sé inn að miðborginni liggi hús að götum og göturými þrengist á köflum. Tekið sé tillit til þess við útfærslu borgarlínuleiðanna.
„Ljóst er að ekki er mögulegt að koma Borgarlínu fyrir í sérrými nema á hluta leiðarinnar um miðborgina. Þar gera hugmyndir að sniðum ráð fyrir að Borgarlínan verði í blandaðri umferð á köflum,“ segir í tillögu borgarinnar, sem var til umsagnar.