Fjármálaráðherra ætti ekki að fá leyfi til að selja Íslandsbanka, þar sem hann nýtur lítils trausts almennings til verksins og hefur sýnt að hann stendur ekki undir ábyrgðinni sem því fylgir. Einnig þyrfti annað og fleira að koma til heldur en salan á bankanum svo að samkeppni á innlendum bankamarkaði stóraukist. Þetta kemur fram í umsögnum frá minnihlutafulltrúum efnahags- og viðskiptanefndar til ráðherrans.
Umsagnirnar hafa ekki enn verið birtar á vef Alþingis, en þær má nálgast með því að smella hér. Fjórar þeirra eru frá fulltrúum stjórnarandstöðu í nefndinni, en þeir eru Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Vill að salan fari í arðbærar fjárfestingar
Guðbrandur, Þórhildur Sunna og Jóhann Páll sögðust ekki vera andvíg því að ríkið seldi eignarhlut sinn í Íslandsbanka í umsögnum sínum.
Þó segir Guðbrandur það vera mikilvægt að nýir kaupendur bankans hafi ekki ríkra hagsmuna að gæta sem beinir samkeppnisaðilar, eigendur samkeppnisaðila eða séu viðskiptavinir hans. Einnig bætir hann við að andvirði sölunnar ætti að renna óskipt í fjárfestingar eða niðurgreiðslu skulda, en ekki í almenna rekstur ríkissjóðs.
Vantraust skiljanlegt í ljósi fyrri tengsla
Samkvæmt Jóhanni Páli ætti forsætisráðherra að skipa annan ráðherra heldur en Bjarna til að sjá um söluna, í ljósi þess að 63 prósent landsmanna vantreysti honum í verkið, samkvæmt skoðanakönnun MMR. Jóhann Páll sagðist hafa skilning á þessu vantrausti þar sem Bjarni hafi tekið þátt í viðskiptum sem veiktu bankann á árunum fyrir hrun ásamt skyldmennum sínum og viðskiptafélögum.
„Þá kom Bjarni að viðskiptafléttu árið 2008 þar sem Hæstiréttur Íslands telur að hagsmunir lántaka hafi verið teknir fram yfir hagsmuni bankans sjálfs. Til að fullt traust ríki um söluna á Íslandsbanka er réttast að forsætisráðherra feli öðrum ráðherra að fara með málið. “ bætti hann við. Einnig kallaði hann eftir frekari greiningum, stefnumörkun og pólitískri umræðu um hvernig sölu bankans yrði háttað áður en að hún haldi áfram.
Þórhildur Sunna telur einnig að Bjarna ætti ekki að vera falið að sjá um söluna á Íslandsbanka. Samkvæmt henni hefur ráðherrann sýnt að hann standi ekki undir þeirri ábyrgð sem því fylgir.
Því til stuðnings vísar Þórhildur Sunna í sölu ráðherrans á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrra, sem hún segir að hafa verið klúðrað með „stjarnfræðilegum hætti“ þar sem bankinn hafi verið seldur með 27 milljarða króna afslætti. Þó bætir hún við að það sé almennt góð hugmynd að losa um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þannig að ríkið eigi ekki tvo banka.
Ætti ekki að selja gulleggin
Ólíkt hinum þremur stjórnarandstöðufulltrúum nefndarinnar var Ásthildur Lóa ekki fylgjandi sölu ríkisins á hlut sinn í Íslandsbanka. Í umsögn sinni sagði hún að sala arðbærra eigna veikti tekjustofna ríkissjóðs til lengri tíma og að óvíst væri að vaxtagjöld ríkissjóðs myndu lækka þótt allur ábati sölunnar færi í að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
„Þá er skuldastaða ríkissjóðs ekki svo alvarleg að selja þurfi gulleggin til að fjármagna fjárfestingar. Þvert á móti,“ sagði hún einnig.
Ásthildur Lóa segir að ríkisstjórnin sé stefnulaus sem eigandi bankanna og að slíkt stefnuleysi leiddi til engrar samkeppni og sjálftöku í hagnaði. Grundvallaratriði væri að áform um að tryggja aukna samkeppni fylgdu sölunni, en samkvæmt henni væri mjög ósennilegt að skyndilega stórjykist samkeppni á íslenskum bankamarkaði með sölu bankann einni og sér.