Borgarfulltrúar minnihlutans í Reykjavík hafa gagnrýnt meirihlutann harðlega og sumir lýst yfir efasemdum um tillögu um viðræður við ríkisvaldið um móttöku flóttafólks á fundi borgarstjórnar, sem nú fer fram.
Eins og Kjarninn greindi frá í morgun var ákveðið að taka tillöguna á dagskrá fundarins með afbrigðum og öll framboð með fulltrúa í borgarstjórn stóðu á bak við það. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði þá að tillagan væri ítrekun á því sem velferðarráð hefði þegar sagt, „að borgin sé tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum og að hún sé tilbúin í viðræður við ríkið um það.“
Tillagan var rétt fyrir klukkan fjögur samþykkt með fjórtán greiddum atkvæðum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins settu þó fram mikla gagnrýni á meirihlutann og á tillöguna sjálfa á fundinum.
Ýtum undir ólöglega komu til Evrópu
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hélt ræðu þar sem hann sagði meðal annars tillöguna til þess fallna að meirihlutinn fái „sinn skerf af athyglinni“ sem málefnið hefur fengið undanfarna daga.
Kjartan sagði einnig að þegar tekið væri á móti fólki sem hefði komið ólöglega til Evrópu ýtti það undir komu fleira fólks. „Í hvert sinn, þá erum við að örva, ýta undir þessa leið vegna þess að hún heppnaðist vel.“ Hann sagði jafnframt að það hefði átt að kanna raunverulegt svigrúm borgarinnar til þess að taka á móti flóttamönnum.
Hann talaði einnig um drauma flóttamanna, sem væru þeir að komast til Vesturlanda og fá ríkisborgararétt. Það væri ekki skylda Vesturlanda að láta þessa drauma rætast, þótt það væri skylda þeirra að bjarga lífum þeirra sem lentu í hættu á leið til Evrópu. „Ég held að draumur allra flóttamanna sé að vera ekki flóttamenn,“ sagði Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, í andsvari við ræðu Kjartans.
„Ógeðslega illa“ staðið að málinu
Fleiri borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins settu fram gagnrýni. Áslaug Friðriksdóttir gerði biðlista hjá borginni að umtalsefni og sagði mörg dæmi um að fólk fái ekki þjónustu hjá borginni vegna fjárskorts. Hún talaði um forgangsröðun í fjármálum borgarinnar, sagði „ógeðslega illa“ að staðið, og sagði meirihlutann þurfa að „gera grein fyrir því hvernig í ósköpunum þið ætlið að fara að þessu.“ Hún sagði verk meirihlutans sýna að hann gæti ekki ráðið við að forgangsraða verkefnum. „Verkin ykkar sýna að þið getið þetta ekki, þið getið ekki staðið við þetta.“
Oddviti flokksins, Halldór Halldórsson, sagði hins vegar auðvelt að styðja tillöguna „því það er samhugurinn sem fær okkur til að gera það.“ Hann sagði verkefnið mikilvægt, en það væri ekki ókeypis.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, sagði mikla pólitíska vinnu í gangi um alla Evrópu við að koma til móts við „þá alþjóðlegu samfélagslegu ábyrgð sem við berum.“ Hún sagði ekkert óeðlilegt við það, Íslendingar vildu hjálpa því „við erum alin upp við siðferði kristilegra gilda“ og „virðum þá grunnreglu að elska skaltu náungann eins og sjálfan þig“. Þrátt fyrir þetta þyrfti að horfast í augu við að fjárhagsstaða borgarinnar væri slæm og húsnæðisskortur fyrir hendi.