Að minnsta kosti 28 manns eru látnir eftir árás á hótel á vinsælum ferðamannastað í Túnis, strandbænum Sousse. Fjölmiðlar í Túnis segja að skothríð hafi verið hafin á Imperial Marhaba hótelinu og að einn árásarmaður hafi verið drepinn.
Innanríkisráðuneyti Túnis segir að flestir hinna látnu hafi verið ferðamenn. Meðal hinna látnu eru sagðir írskir, belgískir, breskir og þýskir ferðamenn. Þá hefur verið sagt að maðurinn sem myrti minnst 28 manns og særði 36 til viðbótar hafi verið einn að verki. Áður hafði verið sagt að árásarmennirnir hefðu verið tveir.
Maðurinn hafði ekki áður komið við sögu lögreglu, en hann var námsmaður að sögn fjölmiðla.
Þetta er önnur hryðjuverkaárásin á vinsæla ferðamannastaði í Túnis á nokkrum mánuðum, en í mars voru 22 myrtir í skotárás á Bardo safnið í höfuðborginni Túnis.
Sjálfsmorðsárás í Kúveit
Þá eru 25 manns látnir eftir sjálfsvígsárás á mosku shía-múslima í Kúveit. 202 til viðbótar særðust í sprengjuárásini. Hryðjuverkahópur tengdur Íslamska ríkinu hefur lýst ódæðinu á hendur sér. Íslamska ríkið hefur ráðist með svipuðum hætti á skotmörk í Sádí-Arabíu og Jemen, en þetta er í fyrsta skipti sem ráðist er á mosku shía-múslima í Kúveit.
Um 2000 manns voru í moskunni þegar sprengjan sprakk. Khalil al-Salih, þingmaður í Kúveit, varð vitni að árásinni og sagði við Reuters að sprengjumaðurinn hafi verið ungur maður. Hann hafi gengið inn í bænasalinn og sprengt sig í loft upp.
Þá er ótalin hryðjuverkaárásin í Frakklandi í morgun, þar sem maður var afhöfðaður og reynt var að sprengja upp gasverksmiðju í nágrenni Lyon.
Þessi frétt hefur verið uppfærð eftir því sem frekari fregnir bárust af hryðjuverkunum.