Heildarútflutningur áls nam tæpum 395 þúsund tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er minnsti útflutningur áls í árshelmingum talið í átta ár. Þetta kemur fram þegar nýbirtar tölur Hagstofu um vöruviðskipti eru skoðaðar.
Samkvæmt tölunum fór nær allt álið sem flutt var út til fimm Evrópulanda: Hollands, Spánar, Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Tæpur helmingur útflutningsins fór til Hollands, á meðan tæpur þriðjungur fór til Spánar.
Þótt miklar sveiflur séu á útfluttu magni á milli mánaða hefur heildarútflutningur áls á milli árshelminga verið nokkuð stöðugur síðustu árin, líkt og sést á mynd hér að neðan. Útflutningurinn lækkaði þó nokkuð á milli 2018 og 2020, samhliða því sem heimsmarkaðsverð á áli tók nokkuð skarpa dýfu.
Á síðustu tólf mánuðum hefur álverð hins vegar aukist töluvert og hefur það ekki verið hærra í tíu ár. Útflutningur áls tók nokkurn kipp samhliða hækkuninni á síðari hluta árs í fyrra, en minnkaði svo töluvert á fyrri helmingi þessa árs, þrátt fyrir að álverðið hafi haldið áfram að hækka á heimsvísu.
Álrisarnir Alcoa og Rio Tinto hafa notið góðs af nýlegu verðhækkuninni, en fyrirtækin skiluðu bæði methagnaði í síðustu ársfjórðungsuppgjörunum sínum. Samkvæmt fyrirtækjunum má rekja hækkunina til aukinnar eftirspurnar eftir hrávörum sem og hökti í framleiðslukeðjunni á síðustu mánuðum.