Í kvöld fer fram viðburður sem ber heitið Festival of Failure í Kaldalónssalnum í Hörpunni, þar sem mistökum verður gert hátt undir höfði. Mistök eru mikilvæg, því án þeirra verður treglega til nýr sannleikur. Lærdómurinn af mistökum skiptir þannig sköpum, þegar upp er staðið.
Um er að ræða örfyrirlestramaraþon þar sem einstaklingar úr ólíkum skapandi greinum segja frá og sýna brot af mistökum sem þeir hafa gert á ferlinum. „Lesið verður úr bókum sem aldrei voru gefnar út, rýnt í misheppnaðar viðskiptaáætlanir og fiktað í ókláruðum verkefnum, “ segir Þóra Tómasdóttir, blaðamaður, en hún er skipuleggjandi viðburðarins. Á viðburðinum verða sagðar persónulegar dæmisögur, í bland við sögur . Hver fyrirlestur verður um það bil tíu mínútur og að því loknu hafa gestir í sal fimm mínútur til að spyrja spurninga.
„Grunnhugmyndin er að miðla þekkingu og skapa þverfaglegan vettvang fyrir fólk í nýsköpun, listum og hverskyns hugmyndavinnu,“ segir Þóra. En viðburðurinn er „óður til tilrauna og djarfra hugmynda“. Tekist er á við mistökin sem eru órjúfanlegur hluti af öllu skapandi starfi en jafnframt rýnt í hvernig mistök geta leitt á vit nýrra ævintýra.
Fyrstu viðburðirnir undir merkjum Festival of Failure verða haldnir í Hörpu í Reykjavík í kvöld, eins og áður segir, í Berlín í febrúar 2015 og aftur í Hörpu á vormánuðum 2015.