Mitt Romney ætlar ekki að sækjast eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í kosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári. Þetta hefur New York Times eftir fólki sem er honum nátengt.
Romney er sagður hafa deilt þessari ákvörðun sinni á símafundi með litlum hópi ráðgjafa sinna í dag. Með því að taka þessa ákvörðun er hann sagður hafa greitt götuna fyrir aðra frambjóðendur, ekki síst Jeb Bush, bróður George W. Bush og son George Bush. Fyrr í janúar hafði Romney lýst yfir áhuga á því að bjóða sig fram í þriðja sinn. Margir af stuðningsmönnum hans, starfsmönnum og styrktaraðilum hafa því verið tregir til að lýsa yfir stuðningi við aðra á meðan afstaða hans var ekki ljós.
Romney hefur tvisvar áður sóst eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins, fyrst árið 2008 þegar hann tapaði en þá varð John McCain frambjóðandi flokksins, og svo árið 2012, þegar hann varð frambjóðandi en tapaði fyrir Barack Obama.