Benjamin Netanjahú hefur tekist að mynda nýja ríkisstjórn í Ísrael, meðal annars með hjálp flokka mjög strangtrúaðra gyðinga. Samsteypustjórn forsætisráðherrans er mjög tæp, með 61 þingsæti af 120 sætum í þinginu. AP fréttastofan greinir frá þessu.
Strangtrúaðir gyðingar í flokkunum Shas og United Torah Judaism, hafa verið í stjórnarandstöðu undanfarin tvö ár, en vegna hlutfallskerfisins í Ísrael hafa þeir notið áhrifa umfram fylgi. Þeir hafa því oft verið í þeirri stöðu að verja ríkisstjórnir og tryggja þeim meirihluta í þinginu. Vegna stöðu sinnar hafa þeir fengið í gegn ýmsar undanþágur fyrir strangtrúaða, eins og undanþágu frá annars lögbundinni herskyldu. Þeir hafa líka fengið háar fjárhæðir frá ríkinu í sérstakt skólakerfi sitt, þar sem mikil áhersla er lögð á að kenna trúna, en ekki mikil áhersla á stærðfræði, ensku eða tölvukunnáttu. Þessar undanþágur og sérstaka kerfi hefur lengi valdið úlfúð meðal annarra.
Fráfarandi ríkisstjórn landsins samþykkti lög sem miðuðu að því að breyta þessu. Nú er hins vegar komin til valda ríkisstjórn sem mun stöðva breytingarnar strax.
Ríkisstjórnarsamstarfið hefur verði gagnrýnt talsvert, bæði innan og utan raða flokks Netanjahús. Hann er talinn hafa gert varhugaverð samkomulag við aðra flokka sem muni kosta ríkið hundruð milljóna dala. Utanríkisráðherrann Avigdor Lieberman neitar til dæmis að taka sæti í þessari ríkisstjórn, og segir að hann geti ekki sætt sig við áframhaldandi undanþágur til handa strangtrúuðum.
Mjög strangtrúaðir eru um átta prósent af átta milljónum Ísraelsmanna. Atvinnuleysi er meira meðal þeirra en annarra hópa, og aðallega meðal karla sem fá bætur frá ríkinu og stunda trúarlegt nám. Undanfarið hefur hins vegar atvinnuþátttaka þessa hóps aukist, þannig að 70% kvenna eru í vinnu og 45% karla. Sérfræðingar eru sammála um að ef atvinnuþátttaka þessara karla eykst ekki umtalsvert muni það þýða mikla kreppu í ísraelsku efnahagslífi.