Stöð 2 fór á svig við lög með umfjöllun Íslands í dag um auglýsingaherferð Mjólkursamsölunnar (MS) þann 28. maí síðastliðinn, en MS greiddi fyrir jákvæða umfjöllun um fyrirtækið. Stundin greinir frá, en Kjarninn vakti athygli á málinu.
Guðný Steinsdóttir, markaðstjóri MS, staðfestir að um keypta umfjöllun hafi verið að ræða í samtali við Stundina. Í umfjöllun Kjarnans kom fram að í lista sem sendur var til Gallup yfir efnisþætti Íslands í dag hefði innslagið verið skráð sem „MS plögg.“
Þá staðfestir Svanur Valgeirsson, auglýsinga- og mannauðsstjóri 365, í samtali við Stundinar að greitt hafi verið fyrir „plöggið,“ eins og haft er eftir honum á vefsíðu Stundarinnar. Hann segir jafnframt að mistök hafi átt sér stað við vinnslu innslagsins og því hafi ekki verið tekið fram að um keypta umfjöllun hafi verið að ræða.
Í kjölfar umfjöllunar Kjarnans birti Neytendastofa leiðbeiningar til fjölmiðla um hvernig eigi að aðgreina keypta umfjöllun frá sjálfstæðu ritstjórnarefni, en þar kemur jafnframt fram að duldar auglýsingar brjóti beinlínis í bága við lög.
Samkvæmt frétt Stundarinnar var innslagið hluti af auglýsingasamningi MS við 365, en kostnaður við keyptu umfjöllunina fæst ekki uppgefinn. Þá segir auglýsinga- og mannauðsstjóri 365 í samtali við Stundinar að fyrirtækið stefni á að fjölga aðkeyptum innslögum en að reynt verði að tryggja að það sé alltaf rækilega kynnt áhorfendum sem slíkt.