„Það er þannig, að ef menn vilja hafa áhrif á umræðuna þá verða þeir að vera þar sem umræðan fer fram og gera grein fyrir máli sínu. Okkur líður ekkert illa í lýðræðislegum félagsskap, þar sem skipst er á skoðunum. Við munum eflaust líka læra margt af því sem sagt er innan ráðsins,“ segir Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), í samtali við Kjarnann, um inngöngu MS í Viðskiptaráð Íslands. Greint var frá því í dag á vefsíðu Viðskiptaráðs að Mjólkursamsalan hafi gengið í samtökin.
Viðskiptaráð (VÍ) hefur meðal annars talað fyrir veigamiklum breytingum á íslensku landbúnaðarkerfinu, sagt neytendur tapa mestu á núverandi kerfi og að æskilegast væri að afnema tolla á öllum vörutegundum. Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og er í eigu rúmlega 650 kúabænda um land allt.
Spurður hvernig hagsmunir og sýn Viðskiptaráðs fari saman með hagsmunum MS segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, það ekki víst að hagsmunir eða sjónarmið ráðsins fari öllum tímum saman með stjórnendum MS og fyrirtækinu. Mjólkursamsalan sé þó stórt rekstrar- og iðnaðarfyrirtæki og viðfangsefni þess séu af ýmsum toga. Bróðurpartur af málefnastarfi Viðskiptaráðs fari saman með hagsmunum MS. Auk þess sé það gott fyrir starfið að skiptar skoðanir og ólík sjónarmið fái að heyrast í beinum samskiptum. Grunnstefna Viðskiptaráðs breytist ekki þótt sjónarmið einstaks eða fárra aðildarfélaga fari á skjön við hana. „Það eru mörg dæmi um að einstakir stjórnendur eða fyrirtæki séu ósammála því sem kemur frá okkur. En við reyna að vinna almennt með heildarhagsmuni að leiðarljósi,“ segir Frosti.
Excel-æfingar innlegg en ekki afdráttarlaus skoðun
Ari Edwald tók við starfi forstjóra MS í byrjun júlí. Hann var áður forstjóri 365 miðla og sat sem slíkur í varastjórn Viðskiptaráðs. Með inngöngu MS í Viðskiptaráð er ljóst að Ari mun áfram taka þátt í starfi ráðsins.
„Mjólkursamsalan hefur átt aðild að Samtökum atvinnulífsins (SA) um áratugaskeið og margir forsvarsmenn MS hafa verið þar í framlínu, sérstaklega á árum áður. Viðskiptaráð rekur að flestu leyti svipað prógramm, varðandi varðstöðu um hagsmuni atvinnulífsins í heild. Við höfum starfað á vettvangi SA en ekki VÍ. Ég þekki sjálfur til í VÍ, við ræddum þetta og okkur fannst tímabært að fara þangað inn líka og taka þátt í umræðunni, vonandi til gagns fyrir báða aðila,“ segir Ari um tilkomu þess að MS gerðist félagi í Viðskiptaráði.
Spurður um meinta hagsmunaárekstra VÍ og MS, einkum hvað tollamál varðar, segir Ari stefnu Viðskiptaráðs ekki hafa verið afdráttarlausa um tollaafnám eða um hvort landbúnaður eigi að þrífast á Íslandi eða ekki. „Niðurstöður á vettvangi svona breiðra samtaka eru yfirleitt einhverskonar málamiðlum og tekur tillit til margra þátta. Við erum ekkert að gera of mikið með eina skýrslu eða ályktun. Sumt af því er nú bara ágætis excel-æfingar, sem geta verið innlegg í umræðuna þó að mönnum geti þótt það misjafnlega breið sýn á málin. Stundum eru umræðuefnin ansi þröngt afmörkuð og taka ekki nægilega tillit til afleiddra þátta.
En það er þannig, að ef menn vilja hafa áhrif á umræðuna þá verða þeir að vera þar sem umræðan fer fram og gera grein fyrir máli sínu. Okkur líður ekkert illa í lýðræðislegum félagsskap, þar sem skipst er á skoðunum. Við munum eflaust líka læra margt af því sem sagt er innan ráðsins,“ segir hann.