Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata skutu fast á innanríkisráðherra, Jón Gunnarsson, undir liðnum fundarstjórn forseta í dag. Þingmenn stjórnarflokkanna blönduðu sér einnig í umræðurnar.
Ástæðan var grein ráðherrans sem birtist á Vísi í gær en þar gerir hann gagnrýni þingmanna fyrr í vikunni að viðfangsefni. Forsagan er sú að fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar og tveir þingmenn Vinstri grænna gagnrýndu harðlega afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis.
Innanríkisráðherra sagði meðal annars í grein sinni á Vísi að þingmenn hefðu hver af öðrum farið rangt með staðreyndir máls sem hefðu auki þess ekki komið fundarstjórn nokkurn skapaðan hlut við. „Í þessum ranga málflutningi á röngum tíma varð þeim flestum tíðrætt um virðingu Alþingis. Kannski ætti það verkefni að efla virðingu Alþingis að byrja í túninu heima,“ sagði hann.
Telur ráðherrann hafa talað af miklum hroka
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata hóf umræðuna og sagði hún að ráðherrann hefði talað af miklum hroka gagnvart þinginu í greininni.
„Þar er tvennu ruglað saman, annars vegar beiðninni sem Alþingi hefur beint til stjórnvalda um afhendingu tiltekinna gagna og upplýsinga á grundvelli laga sem stjórnvöldum ber að sinna og hins vegar ferli við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt, sem sannarlega er í vinnslu í allsherjar- og menntamálanefnd. Í greininni tekur ráðherra af allan vafa um það að hann telur það í sínum verkahring að stýra vinnu þingsins.“
Biðlaði hún til forseta þingsins að beita sér af öllum þunga til að standa vörð um virðingu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi.
Greinin með öllu forkastanleg
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar kom næst í pontu og sagðist taka undir orð Arndísar Önnu. „Þessi grein hæstvirts innanríkisráðherra er með öllu forkastanleg því að svo virðist sem hæstvirtur ráðherra átti sig ekki á innihaldi laga í málaflokknum sem hann stýrir. Hann leyfir sér í þessu máli að tala um tvöfalt kerfi þar sem jafnræði ríkir ekki, að það séu útvaldir sem fái hér ríkisborgararétt með lögum.“
Hún hvatti ráðherrann til þess að kynna sér betur bakgrunn þessara laga og ástæður þess að málið væri með þessum hætti. Hún tók jafnframt undir þá ósk að forseti færi í lið með þinginu og beitti sér fyrir því að framkvæmdarvaldið og ráðherrar virtu skýr lagaboð um störf Alþingis.
Hún sagði í annarri ræðu sinni skömmu síðar að það væri grafalvarlegt þegar ráðherra léti persónulega skoðun sína koma í veg fyrir að stofnanir ríkisins færu að lögum.
„Það er alveg skýrt í lögum um veitingu ríkisborgararéttar að Alþingi skal veita ríkisborgararétt. Aðstæður fólks bjaga jafnræði. Það er þannig að þegar ríkisborgararétturinn er veittur samkvæmt stjórnvaldsákvörðun þá þarf að uppfylla öll lagaskilyrði en þess vegna, og einmitt þess vegna, er Alþingi veitt þessi undanþáguheimild fyrir þá einstaklinga sem geta ekki uppfyllt öll lagaskilyrðin.“
Hvatti hún ráðherrann til þess að kynna sér aðstæður fólks sem er í neyð „sem hefur jafnvel búið hér frá fæðingu og sem hefur jafnvel búið hér áratugum saman en getur ekki uppfyllt öll lagaskilyrði, til dæmis vegna þess að það er ekki læst, vegna þess að það getur ekki lært annað tungumál, vegna þess að það getur ekki lært að lesa letur eins og við notum hér eða hreinlega vegna heilsufarsástæðna. Þess vegna getur það ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fá ríkisborgararétt samkvæmt stjórnvaldsákvörðun. Þetta er undanþáguheimild sem Alþingi verður að hafa einmitt vegna skoðana eins og ráðherra hefur nú sýnt.“
Vill að forseti Alþingis taki málið upp við ráðherra
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata tók einnig þátt í umræðunum. „Einu sinni í gamla daga, haustið 2018, sagði dómsmálaráðuneytið að heppilegast væri að endurskoðun fyrirkomulags um veitingu ríkisborgararéttar yrði unnin í góðu samstarfi ráðuneytisins, Útlendingastofnunar og allsherjar- og menntamálanefndar. Nú kemur fram í grein dómsmálaráðherra að ráðuneytið hafi tilkynnt Alþingi einhliða um breytingar á verklagi sem þau hafa ítrekað reynt að gera í trássi við vilja allsherjar- og menntamálanefndar. Og hvenær var það gert? Það var gert í júní á síðasta ári þegar þingið er í hléi.
Allsherjar- og menntamálanefnd kemur ekki saman fyrr en næstum hálfu ári síðar og þá er allt orðið of seint. Þá er Útlendingastofnun búin að slugsa nógu lengi til að ekki sé hægt að afgreiða umsóknir þeirra rúmlega 100 einstaklinga sem borguðu 25.000 hver til að fá afgreiðslu hennar í samræmi við lög. Þessi lítilsvirðing ráðherra, sem birtist í grein hans á Vísi, er eitthvað sem ég vænti að forseti taki upp af mikilli alvöru við ráðherrann. Og það að hann telji sig geta tilkynnt einhliða hvernig Alþingi eigi að starfa bendir til þess að hann þurfi kennslustund í stjórnsýslu,“ sagði Andrés Ingi.
Hvatti forseta til að grípa inn í
Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar notaði tækifærið og lýsti yfir áhyggjum af því að henni þætti þessari ríkisstjórn vera orðið fullt tamt að feta það sem áður hefði talið ótroðnar slóðir, þ.e. að efnisatriði einstakra mála og afstaða einstakra ráðherra, jafnvel ríkisstjórnarinnar, til þeirra stýrði því hvort lögbundin upplýsingagjöf ráðuneyta eða undirstofnana þeirra til Alþingis væri virt.
„Ég ætla bara að hvetja forseta til að grípa inn í og standa með þinginu og almenningi í þessum málum.“
Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna tók undir gagnrýnina. „Þetta mál er miklu stærra en afgreiðsla umsókna um ríkisborgararétt. Hér er bara um þrískiptingu valdsins að ræða. Meðferð þessa máls hefur verið með öllum ólíkindum og ég held að það sé alveg ljóst að forseti og við sem hér sitjum þurfum að leysa úr þessu. Þetta eru óboðleg vinnubrögð. Það er ekki ráðuneytis eða stofnunar að skipa þingnefnd einhliða fyrir um breytt verklag. Þannig gengur það ekki fyrir sig.
Stofnuninni ber að veita okkur ákveðin gögn innan ákveðins frests samkvæmt lögum og það ber að virða. Annað mál er svo hvort þessi tilhögun sé rétt og hvort við þurfum að breyta henni. En svona ganga málin einfaldlega ekki fyrir sig,“ sagði hún.
Breytingin kom nefndarmönnum á óvart
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagð að það hefði komið nefndarmönnum á óvart að orðið hefði breyting á verklagi Útlendingastofnunar.
„En það er alveg ljóst að það bréf barst til þáverandi allsherjar- og menntamálanefndar. Ég get tekið undir að ráðuneyti eða stofnanir ákveða ekki einhliða breytt verklag þingsins, það er alveg ljóst. En við höfum átt góðan fund með ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins þar sem er bent á þá annmarka sem uppi eru við það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið hér á síðustu misserum. Það lýtur að jafnræði þeirra sem eru að sækja um ríkisborgararétt. Við hljótum að sjálfsögðu að vilja gæta að því jafnræði þannig að ég tek undir það sem sagt hefur verið hér, við þurfum að finna betra framtíðarfyrirkomulag.
En ég er þess fullviss að þegar við setjumst niður með fulltrúum Útlendingastofnunar, sem núna hafa sent okkur þær umsóknir sem borist hafa, umsagnir um þær umsóknir sem þeir hafa náð að fara yfir, þá getur undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar komist að góðri niðurstöðu og sátt í þessu máli. Við hljótum öll að vilja öll leysa þetta.“
Ráðherrann ætti að skoða „eigið tún“
Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata sagðist taka undir gagnrýnina. „Mig langar hins vegar að benda á eina stóra óvirðingu sem hæstvirtur innanríkisráðherra setur fram í niðurlagi greinar sinnar. Þar talar hann um að við höfum verið að nota umræður um fundarstjórn forseta til að kvarta yfir starfsháttum ráðherra og stofnana hans.“
Benti hann ráðherra á að hann hefði ekki verið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi frá því fyrir áramót og því ekki gefið kost á því að þingmenn gagnrýndu þetta á neinum öðrum stað í dagskránni en undir fundarsköpum forseta. „Ég held að hæstvirtur ráðherra ætti að skoða sitt eigið tún þegar kemur að því að sýna Alþingi virðingu,“ sagði hann og vísaði þar með í orð ráðherra í greininni.
Setur traust sitt á Bryndísi og Birgi
Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og 2. varaforseti Alþingis blandaði sér í umræðuna og sagðist taka undir með þingmönnunum og leggja áherslu á að samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins færi fram samkvæmt lögum og að virðing væri á báða bóga.
„Ég vil líka koma því að að ég set mitt traust á hæstvirtan formann allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndísi Haraldsdóttur, og hæstvirtan forseta varðandi það að koma á eðlilegum samskiptum þannig að afgreiðsla þeirra umsókna sem nú liggja fyrir geti farið fram. Ég vil samt sem áður líka taka undir það að mikilvægt er að vera stöðugt að vakta og endurskoða fyrirkomulagið og það þarf að gerast í samstarfi allsherjar- og menntamálanefndar og ráðuneytis.“
„Er komið upp vantraust í stjórnarliðinu á innanríkisráðherra?“
Andrés Ingi sagði í framhaldinu að það væri „nú ýmis dellan í Vísisgrein hæstvirts ráðherra sem mætti nefna“.
„En mig langar að nefna sérstaklega þá staðhæfingu að almennar umsóknir um ríkisborgararétt lendi í bið vegna þeirra sem sækja um til Alþingis. Allt þetta fólk greiðir fyrir afgreiðslu Útlendingastofnunar í samræmi við gjaldskrá sem á að endurspegla þá vinnu sem felst í afgreiðslunni. Annað hvort er gjaldskráin röng, sem er á ábyrgð ráðherra, eða að fjármunirnir skila sér ekki til Útlendingastofnunar, í starfsliðið, til að vinna þessar umsóknir. Að kenna fólkinu sem sækir um til Alþingis um tafir á skrifstofu Útlendingastofnun – þetta er bara þvæla. Svo tek ég sérstaklega eftir því að hér mæta fulltrúar samstarfsflokkanna upp í ræðustól. Fulltrúi Vinstri grænna gagnrýnir ráðherrann berum orðum. Fulltrúi Framsóknar lýsir fullu trausti á tveimur Sjálfstæðismönnum. Hvorugur þeirra er ráðherrann. Hvorugur Sjálfstæðismaðurinn sem háttvirtur þingmaður Líneik Anna Sævarsdóttir treystir í þessu máli er ráðherra málaflokksins.“
Spurði hann hvort komið væri upp vantraust í stjórnarliðinu á innanríkisráðherra.
Vill uppfæra verklagið
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins kom síðastur inn í umræðuna og sagðist vilja rifja upp að fyrirkomulagið sem viðhaft væri í þessum efnum væri ekki nýtt vandamál.
„Sjálfur hef ég í gegnum allt liðið kjörtímabil setið hjá við afgreiðslu ríkisborgararéttar, ekki vegna þess að ég hefði persónulega út á þá sem hann hlotnaðist að setja heldur þótti mér það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið mjög brogað, svo að vægt sé til orða tekið, og gerði ítrekað tillögu um að það yrði uppfært og lagfært. Alltaf var tekið vel undir það en svo gerist ekki neitt. Það gerist ekki neitt fyrr en liðið kjörtímabil er búið, þá gerist þetta með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.
Ég er hræddur um að við séum að fara að sigla inn í annað kjörtímabil undir samstarfi þessara sömu flokka þar sem mál eru þæfð og svæfð þar til pólitíkusarnir eru komnir í skjól eins og í þessu máli síðastliðið sumar þegar búið var að fresta þingi og fólk komið í undirbúning kosninga. Ég vona bara að sú hvatning sem hér hefur komið fram til formanns háttvirtrar allsherjar- og menntamálanefndar að uppfæra þetta verklag verði til einhvers gagns því að undanfarin fjögur ár urðu til lítils í þeim efnum þar til ráðuneytið sjálft steig inn í málið.“